12 milljónir í skaðabætur auk dráttarvaxta

Akureyrarbær bauð út í september 2009 byggingu íþróttamiðstöðvar við Giljaskóla og var áætlaður Kostnaður 355 milljónir króna. Alls bárust fjórtán tilboð og var tilboð Eyktar lægst, eða 273 milljónir, sem er 76,7% af kostnaðaráætlun. Næst kom tilboð SS Byggis á Akureyr, 276 milljónir, sem er 77,7% af kostnaðaráætlun.

Á fundi í stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar í október voru tilboð í verkið kynnt og var ákveðið að ganga til samninga við SS Byggi, enda fyrirtækið með hagstæðasta tilboðið, þegar áætluð tímavinna vegna aukaverka hafi verið dregin frá. Í kjölfarið kærði Eykt þá ákvörðun bæjarins.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að Fasteignum Akureyrarbæjajar hafi í raun borið að ganga til samninga við Eykt um verkið. Eykt krafðist ríflega 40 millj. kr. bóta, en héraðsdómur dæmdi fyrirtækinu 12 milljónir króna í bætur, auk dráttarvaxta. Þá er bænum gert að greiða málskostnað Eyktar, tvær milljónir króna.

„Ég hef ekki náð að kynna mér dóminn til hlítar, en við fyrstu yfirferð vakna óneitanlega ýmsar spurningar. Við komum til með að fara vandlega yfir dóminn og ákveða hvort honum verður áfrýjað eður ei,“ segir   Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi L-listans og formaður framkvæmdaráðs Akureyrar.

karleskil@vikudagur.is

Nýjast