107. þáttur 21. nóvember 2013
Íslensk fjarðanöfn
Íslensk örnefni geyma vitneskju um íslenskt mál og af sumum þeirra má ráða í skilning og upplifun manna af landinu. Nú verða tekin nokkur dæmi um þessa upplifun, einkum eins og hún birtist í nokkrum fjarðanöfnum. Fyrst ber að nefna örnefnið Faxaflói sem blasir allur við mér úr sæti mínu í Blásölum á Selshrygg í Kópavogi. Flóinn hefur hlotið nafn af hvítfextum öldum þegar blæs að norðan eða vestan, þótt frásögn Landnámu um Faxa, suðureyskan mann, sem var með Flóka Vilgerðarsyni á skipi, segi hann hafa gefið flóanum nafn. Í Noregi er til örnefnið Faksfjord, skammt austur af Narvik, og sagt að um sé að ræða den skummande, hinn hvítfexta.
Inn af Faxaflóa gengur Hvalfjörður sem sumir halda að hafi hlotið nafn af hvalveiðum - jafnvel hvalstöðinni sem þar hefur verið frá því árið 1948. Örnefnið er hins vegar miklu eldra en í Landnámu segir að Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar. Nafnið á rætur að rekja til þess að fyrir botni fjarðarins er 852 m hátt fjall, Hvalfell, sem af sjó og af Hvalfjarðarströnd lítur út eins og hvalur með bakugga, tind í austanverðu fjallinu. Á sama hátt ber Reyðarfjörður nafn sitt vegna Reyðarfjalls, sunnan fjarðarins sem utan af hafi lítur út eins og bak á steypireyði þar sem Spararfjall er bakuggi steypireyðarinnar. Reyðar örnefni eru mörg á landinu, flest kennd við reyðina, bleikjuna eða reyðarsilunginn. Örnefni, sem hafa hvalur að fyrra lið, eru einnig mörg, öll dregin af hvalfiski í sjó - eða á landi. Íslendingar á Landnámsöld sáu því myndir af alls konar fyrirbærum í fjörðum og fjöllum.
Norðan Faxaflóa er Breiðafjörður, sem upphaflega mun hafa heitið *Breiðifjörður og er annar stærsti fjörður eða flói landsins á eftir Faxaflóa. Inn úr Breiðafirði ganga Gilsfjörður, Króksfjörður, Berufjörður, Þorskafjörður, Djúpifjörður, Gufufjörður - og upp af honum Gufudalur - Kollafjörður, Kvígindisfjörður, Skálmarfjörður og Vattarfjörður undir Vattarfjalli, Kerlingarfjörður og Mjóifjörður, Kjálkafjörður og Vatnsfjörður. Inn af honum er Vatnsdalur og Vatnsdalsvatn sem upphaflega hefur aðeins heitið *Vatn og af því hefur Vatnsfjörður og Vatnsdalur dregið nafn. Svipaða sögu er raunar að segja af Vatnshlíðarvatni á Vatnsskarði, milli Skagafjarðar og Svartárdals, þar sem vatnið hefur upphaflega heitið *Vatn og skarðið við það kennt og nefnt Vatnsskarð og bærinn Vatnshlíð. Síðar hefur vatnið tekið nafn af bænum og kallað Vatnshlíðarvatn, en slíkar tvítekningar eru algengar í örnefnum á Íslandi.
En ætlunin var að ræða einkum um fjarðanöfn. Eins og flest íslensk örnefni eru firðirnir inn úr Breiðafirði náttúrunöfn: draga nafn sitt af náttúrulegum aðstæðum. Uppruni flestra nafnanna liggur í augum uppi. Króksfjörður heitir eftir króki eða krókeyri sem nú heitir Króksfjarðarnes. Sennilegt er að við Berufjörð sé fjall sem minnt hefur á beru - birnu - ellegar þar sé að finna graslaust flæðiland, beru, sem svo heitir. Við Kerlingafjörð er kerling, stapi eins og annars staðar þar sem kerlingarörnefni er að finna. Skálmarfjörður er kenndur við vopnið skálm. Er hugsanlegt að Skálmarnesmúlafjall hafi heitið *Skálm. Þorskafjörður er ekki fjörður þar sem þorskar synda heldur mun fjörðurinn heita svo af því hann þornar upp á fjöru, enda er hann grunnur, en orðið þorskur merkir fiskur sem er þurrkaður.
Tryggvi Gíslason