10 milljónir til að styrkja ímyndina

Eyþing, Samband sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu og Þingeyjarsýslum hefur skrifað undir verksamning við sjónvarpsstöðina N4 á Akureyri um framleiðslu og dreifingu á tuttugu þáttum, sem eiga að gefa fjölbreytta og margvíslega sýn á mannlíf, náttúru og samfélag á svæði sambandsins. Þættirnir verða sýndir einu sinni í viku, frá byrjun september til janúarloka á næsta ári.

Sjónvarpsstöðin fær 10 milljónir króna fyrir að framleiða og sýna þættina, sem verða 24 til 28 mínútur að lengd. Stöðin fær því að jafnaði 500 þúsund krónur fyrir hvern þátt.

Samkvæmt samningnum er áætlað að verkefnið styrki ímynd svæðisins.

Með aukinni upplýsingamiðlun, bæði innan svæðis og utan, er stefnt að því að markaðssetja svæðið með því að gefa mynd af þeim tækifærum sem svæðið býður upp á, bæði í leik og tarfi.

Styrkurinn er veittur til verkefnisins samkvæmt Sóknaráætlun fyrir Norðurland eystra, sem er samastarfsverkefni ríkisins og sveitarfélaga.

Formaður Eyþings er Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar og bæjarfulltrúi L-listans.

karleskil@vikudagur.is

 

Nýjast