Byssumaður handtekinn á Akureyri

Umsátursástand skapaðist á Akureyri
Umsátursástand skapaðist á Akureyri

Miðaldra karlmaður var handtekinn um klukkan 5 í morgun eftir að lögregla hafði umkringt hús í Naustahverfi á Akureyri. Tilkynnt hafði verið um skothvelli um hálf tvö og var í kjölfarið allt tiltækt lið lögreglunar sent á vettvang. Einnig barst liðsauki frá sérsveit Ríkislögreglustjóra sem og frá lögreglunni á Húsavík og Dalvík til að standa vörð um húsið og aðstoða við almenna löggæslu. Svæði voru girt af í kringum húsið og nærliggjandi götum lokað einnig voru íbúar í nærliggjandi húsum látnir vita.

Ekki er vitað á þessari stundu hvað manninum stóð til eða á hvað hann var að skjóta, en engan sakaði.  „Það er bara rannsókn í gangi. Það er ekki hægt að staðfesta neitt um það, “ sagði Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra í samtali við fréttastofu RÚV snemma í morgun. „Lögreglan fór á staðinn ásamt sérsveitarmönnum sem eru staddir á Akureyri og gerðu ráðstafanir til að kalla á liðsauka frá sérsveit Ríkislögreglustjóra í Reykjavík og tryggja vettvang," sagði hún enn fremur. Umsátrið stóð yfir til um 5 í morgun en þá gaf maðurinn sig fram við lögreglu. Búist er við að maðurinn verði yfirheyrður síðar í dag. Þetta kemur fram á vef RÚV. EPE

Nýjast