Tillögur vinnuhópsins og niðurstöður um framhald verkefnisins:
Aðilar vinnuhópsins eru sammála um að vænlegasta leiðin til árangurs sé tillaga nr. 1 sem felst í breyttri nýtingu svæðisins þar sem fjárfestum og byggingaraðilum verði gert kleift að leggja fram tillögur og hugmyndir um framtíðarnotkun svæðisins. Boðið verði í byggingarréttinn út frá skilgreindum forsendum.
Með því næðist, að mati hópsins, möguleiki á að fjölmargir gætu sent inn hugmyndir um nýtingu svæðisins sem hægt yrði að velja úr í sátt við íbúa og hagsmunaaðila vegna þeirra breytinga sem gera þyrfti á svæðinu í heild.
Áður en auglýst yrði eftir fjárfestum og byggingaraðilum, verða skilgreindar forsendur í samvinnu við ráðgjafa þar sem fram kæmu upplýsingar um byggingarreiti, nýtingarhlutfall, bílastæði, gönguleiðir, sjóntengsl, gróður, hæðir og fjöldi bygginga o.fl.
Uppfylla þyrfti einnig eftirfarandi þætti við vinnslu tillagnanna:
- Sterk og heilsteypt bæjarmynd.
- Virkar tengingar við nærumhverfi, þ.m.t. samgöngur og sjónlínur.
- Skjólsæl, sólrík og aðlaðandi rými.
- Áhugaverð og sveigjanleg umgjörð fyrir íbúða- og miðbæjarstarfsemi, mannlíf og menningu.
- Gæði í hönnun og efnisvali.
Bæjarstjórn samþykkir tillögur vinnuhópsins með 7 atkvæðum gegn 3.
Bæjarfulltrúi Oddur Helgi Halldórsson óskar bókað að hann greiddi atkvæði gegn afgreiðslunni.
Fram kom tillaga um að bæjarráð skipi þriggja manna vinnuhóp til að sjá um framhald verkefnisins og var hún samþykkt með 8 samhljóða atkvæðum.
Bæjarfulltrúi Jóhannes Gunnar Bjarnason óskaði eftirfarandi bókað:
„Skýrsla vinnuhóps um framtíðarskipulag Akureyrarvallar er í raun upptalning á þeim möguleikum sem meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar sér til nýtingar Akureyrarvallar. Ekkert verðmat var gert á svæðinu en það var talið eitt megin viðfangsefni vinnuhópsins og aðrar ákvarðanir átti að taka með hliðsjón af því mati. Undirbúningur Landsmóts UMFÍ og framtíðarskipulagning íþróttasvæða KA, Þórs og UFA eru því miður dæmi um lélega stjórnsýslu og tilviljunarkennd vinnubrögð þar sem lítið samráð var haft við fagaðila."