Byggja á 45 ný hjúkrunarrými fyrir aldraða á Akureyri

Ríkisstjórnin samþykkti í vikunni að heimila félagsmálaráðherra að vinna að hugmyndum um bygginu 361 hjúkrunarrýmis fyrir aldraða á árunum 2010 til 2012. Hugmyndirnar gera ráð fyrir að því að byggð verði 45 hjúkrunarrými á Akureyri. Sigrún Stefánsdóttir formaður félagsmálaráðs Akureyrar var að vonum ánægð með þessi tíðindi, sem og Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri.

 

Sigrún segir að ekki sé um fjölgun hjúkrunarrýma að ræða, þar sem leigusamningur vegna Kjarnalundar rennur út árið 2012 en þar eru nú 44 rými. "Þetta eru afar ánægjulegar fréttir á þessum tímum og leysir vanda sem við höfum staðið frammi fyrir. Við höfum verið að þrýsta á það undangengin ár að koma þessu í gegn og ég og Hermann Jón höfum átt fundi með bæði fyrrverandi og núverandi ráðherrum um þetta mál. Þetta verður mjög til bóta varðandi þjónustu við aldraða og þá er þetta ekki síður ánægjulegt fyrir atvinnulífið."

Sigrún segir nauðsynlegt að þessi nýju hjúkrunarrými verði tilbúin þegar leigusamningurinn í Kjarnalundi rennur út og að því verði stefnt. "Húsnæðið í Kjarnalundi er barns síns tíma og er ekki að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru, enda ekki byggt sem slíkt." Sigrún segir að ekki liggi fyrir hvar þetta húsnæði verður byggt en að það verði ekki vandamál að finna því stað. Hún sagði að horft hafi verið til Akureyrarvallarsvæðisins en að ekki standi til að byggja þar í nánustu framtíð. "Ég sé fyrir mér að þetta húsnæði verði byggt á svæði þar sem hægt verður svo að bæta við í framtíðinni. Á Hlíð eru einnig rými sem er ekki viðunandi og því má segja að það vanti 80-90 rými í viðunandi horfi. Þessi nýju 45 rými munu því leysa um helming vandans."

Hermann Jón segir að það sé full ástæða til þess að þakka þau jákvæðu viðbrögð sem fengist hafi við þessu erindi. Gert sé ráð fyrir að sveitarfélögin geri samning við fjármála- og félagsmálaráðuneytið um verkefnið og greiðslur vegna þess. Hermann Jón fundaði með félagsmálaráðherra ásamt öðrum bæjarstjórum sem málið varðar í vikunni, þar sem farið var betur yfir samstarf ríkisins og sveitarfélagsins um framkvæmdina.  

Nýjast