Jón Hjaltason skrifar
Ég held að við Ragnar Sverrisson séum á öndverðum meiði um nær allt er lýtur að framkvæmd miðbæjarskipulags. Og þegar Ragnar skrifar að flestar bakhliðar gömlu húsanna við Hafnarstræti og á þá við Bautann, gamla Íslandsbanka og húsin þar fyrir innan séu ekkert augnayndi verð ég hreinlega orðlaus.
Glámskyggni
Sama glámskyggni glepur fyrir þegar kemur að skipulagsumræðunni. Talað er um lágreist hús (þau verða um 15 metrar á hæðina), styrkja á gömlu götumyndina (með steinsteypu sem enginn veit hvernig líta mun út), skapa bjart umhverfi (líkt og er í syðri hluta göngugötunnar), bílastæðin burt (neðanjarðarstæði og bílahús komi í staðinn seinna). Fleira mætti telja í þessum dúr en á endanum verður sú sorglega staðreynd ekki umflúin að bæjarstjórn Akureyrar er staðráðin í að Drottningarbrautarreiturinn skuli þéttbyggður (einhverjir vilja raunar halda þeim framkvæmdum áfram út að BSO).
Við stefnum því óðfluga í átt að sömu bæjarmynd og finna má dæmi um í Reykjavík og Hafnarfirði þar sem nýleg háhýsi eru fram við sjávarsíðuna, rétt eins og til að fela eldri byggðina. Sama ber fyrir augu nyrst á Siglufirði en Siglfirðingar sáu heldur betur að sér og fylgja nú þeirri skemmtilegu og réttu stefnu að láta byggðina lækka niður að sjónum.
Slysastefna
Raunar þurfum við ekkert út fyrir bæjarmörkin til að sjá dæmi þessarar slysastefnu. Fyrir austan Bautann er ágætt steinhús, sem á þó alls ekki heima á þessu horni. Er ekki augljóst að húsaröðin inn Hafnarstrætið væri mun skemmtilegri ef þetta hús hefði aldrei risið?
Svo er talað um Bútasaum af skefjalausri fyrirlitningu, sem ég tek reyndar undir (þar erum við Ragnar þó sammála). Akureyringum verður hins vegar ekki forðað frá þessum bútasaumi ef stefna bæjarstjórnar nær fram að ganga. Við megum eiga von á ákaflega flekkóttu hverfi á Drottningarreitnum (má ég ekki sleppa brautinni?), rétt eins og gerðist á torfunni fyrir norðan Höepfner. Selja á byggingarmönnum lóðarréttinn en eftir það verður erfitt að hemja þá eins og dæmin sanna. Nei, ef menn vilja í alvöru koma í veg fyrir bútasaum í byggðinni er aðeins eitt ráð tiltækt; að bærinn láti teikna hús á lóðirnar og selji síðan teikningu og byggingarrétt í einum pakka.
Allra best væri þó að láta af þessum byggingaráætlunum á Drottningarreitnum, meðal annars vegna hinnar miklu bæjarprýði sem er þar að bakhliðum allra gömlu húsanna.
Með þökk fyrir birtinguna.
Höfundur er sagnfræðingur