Búist við átakafundi í bæjarstjórn

Miðbærinn verður í brennidepli í kvöld. Mynd/Hörður Geirsson
Miðbærinn verður í brennidepli í kvöld. Mynd/Hörður Geirsson

Aukafundur í bæjarstjórn Akureyrar verður á dagskrá í kvöld, fimmtudag, að ósk minnihlutans. Eins og greint var frá í síðustu viku óskaði minnihlutinn eftir aukafundi varðandi miðbæ Akureyrar. Minnihlutinn vill að rætt verði um afgreiðslu skipulagsnefndar á málefnum Hafnarstrætis 106, umræður verði um fyrirspurn til bæjarstjórnar frá Ragnari Sverrissyni sem birtist í Akureyri Vikublaði þann 5. febrúar sl. og einnig að rætt verði um framtíðarsýn bæjarstjórnar varðandi miðbæinn.

Njáll Trausti Friðbertsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að minnihlutinn muni væntanlega koma með bókanir undir öllum þremur liðunum sem ræddir verða í kvöld. En má búast við því að hart verði tekist á í kvöld? „Já, ég gæti vel trúað því enda eru þetta mál sem flestir hafa skoðanir á,“ segir Njáll Trausti.

Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti Vinstri grænna, segist kalla eftir umræðu um framtíðarsýn á miðbæjarskipulagið. „Okkur þykir þetta stórt mál og miðbæjarskipulagið er eitthvað sem skiptir bæjarbúa miklu máli. Þess vegna fórum við fram á þennan fund. Það er t.d. ekki eðlilegt að skipulagsnefnd og skipulagsstjóri séu á öndverðum meiði varðandi Hafnarstæti 106 og þarf að ræða það sérstaklega. Skipulagsnefndin hefur sagt að það vilji skýrari verklagsreglur og það er okkar að ræða það líka,“ segir Sóley.

Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hefur verið deilt um Hafnarstræti 106, jafnan nefnt Braunhúsið. Umræður um afgreiðslu byggingarleyfis vegna breytinga á útliti og innra skipulagi hússins voru teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar Akureyrarbæjar nýverið. Ágreiningur er á milli nefndarinnar og skipulagsstjóra bæjarins um túlkun á hvað sé óveruleg eða veruleg breyting og því hvort skipulagsstjóra bar að leggja málið fyrir skipulagsnefnd eða ekki.

Skipulagsnefnd gerir athugasemd við að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir verulegum breytingum á Hafnarstræti 106 án umfjöllunar nefndarinnar. Nefndin telur að breytingarnar vinni gegn samþykktu skipulagi bæjarins og séu til þess fallnar að festa húsið í sessi.

-þev

Nýjast