Sigmundur Hreiðarsson vinnslustjóri Norðlenska á Húsavík segir slátrun hafa gengið mjög vel það sem af er. Nú í vikunni var búið að slátra um 62 þúsund dilkum og meðalþunginn var 16,15 kg. Til samanburðar var meðalþunginn 16,08 kg að lokinni slátrun haustið 2008, haustið 2007 var hann 15,21 kg, þannig að um töluverða þyngdaraukningu hefur verið að ræða undanfarin ár.
„Verkun hefur verið afburða góð og samdóma álit þeirra sem skoðað hafa hjá okkur að kjötið nú sé mjög fallegt. Það er nánast undantekning ef himnurifinn skrokkur sést hér og gallar hafa farið niður í 0,36%. Það verður að teljast frábær árangur, enda er það markmið okkar að skila neytendum fallegu og góðu lambakjöti, það getum við gert því við höfum á að skipa mjög hæfu starfsfólki," segir Sigmundur.
Hvað stafsfólk varðar voru ráðnir 52 erlendir starfsmenn nú í haust, en þeir voru 58 haustið 2008. „Okkur þykir svolítið einkennilegt að þurfa að leita til útlanda eftir starfsfólki á sama tíma og fólk er skráð atvinnulaust hundruðum saman á okkar svæði. En það þykir víst ekki mikið inn hjá stórum hópi fólks að vinna við eitthvað sem er blautt og kalt," segir Sigmundur.
Slátursala hefur gengið mjög vel og segir Sigmundur að aukningin sé veruleg. „Sem betur fer er fólk að átta sig á að sláturmatur er góður og ódýr ," segir hann og bætir við að það hafi þurft erfiða kreppu til að bændur og afurðir þeirra öðluðust þá virðingu sem þeim bæri.