Búið að hreinsa um 480 tonn af sandi af götum Akureyrar

Akureyrarbær gerði samning við fyrirtækið Hreinsitækni, í kjölfar útboðs, um að hreinsa götur og gangstéttir í bænum og eins og glöggir bæjarbúar hafa séð, eru sópar og sérstakur götuþvottabíll, á ferðinni um bæinn þessa dagana. Samningurinn er um vorhreinsun, sem nú stendur yfir, sumarhreinsum og svo hausthreinsun, á þessu 150 ára afmælisári Akureyrarkaupstaðar. Starfsmenn Hreinsitækni hafa farið yfir um 2/3 af bænum og hafa þeir sópað upp um 480 tonnum af sandi. Þetta magn hefur svo verið flutt í burtu á stórum vörubílum í samtals 36 ferðum. Sigurður Gunnar Hjartarson starfsmaður Hreinsitækni á Akureyri, segir að verkið hafi gengið nokkuð vel en þó mættu bæjarbúar vera duglegri að færa bíla sína, ekki síst þegar þeir sjá skiltin sem sett eru upp tímanlega áður en hreinsun hefst. Ekki sé hægt að hreinsa undan bílum, sem eru fyrir. Eftir helgina verður farið í hreinsa götur á Eyrinni og segir Sigurður að ef allt gangur vel, verði hægt að ljúka vorhreinsuninni í lok næstu viku. Annar stóri sópurinn forsópar göturnar, áður en þvottabíllinn smúlar göturnar með háþrýstingi og á eftir koma stór sópur og annar minni.

Götuþvottabílarnir eru hentugir til að þvo götur, bílastæði, bílastæðahús og fleira. Gatnasópar eru notaðir við að sópa götur, bílastæði, flugbrautir, vöruskemmur, bryggjur, athafnasvæði fyrirtækja og fleira. Höfuðstöðvar Hreinsitækni ehf. eru í Reykjavík en auk þess er fyrirtækið með útibú á Akureyri og fjóra starfsmenn.

Nýjast