Búðargil, ekki Lækjargil

Þór Sigurðsson
Þór Sigurðsson

Í Vikudegi 6. nóvember er þónokkuð fjallað um Búðargil í innbænum á Akureyri. Þar er það alltaf kallað Lækjargil. Sú tilhneiging að kalla gillið lækjargil fer mjög vaxandi í seinni tíð. Þessi ruglingur kemur efalaust til af því að gatan, sem eftir gilinu liggur heitir Lækjargata og renna þá gilið og gatan saman í eitt. Mér finnst ástæða til að bend á þetta því að best er að örnefni fái að haldast óbrengluð.

Hin upprunalega Akureyri var ekki stór. Hún var einungis frambuðurinn úr þessu gili og náði svona uþb. að sunnan, frá Gamla spítalanum og skammt norður fyrir Pakkhúsið. Þar norðan við var fjaran, ófær á stórstraumsflóði en sunnanvið eyrina var landræma, sem byggðist áður en farið var að fylla upp norðanvið. Fyrsta byggð á Akureyri var verslunarhús er danskur kaupmaður byggði og var það kallað búð.

Upp af búðinni var gilið er var kennt við búðina, Búðargil og lækurinn er rann eftir gilinu Búðarlækur. Hann er nú horfinn í dag. Svipaður ruglingur varð með Grófargilið. Gatan, sem lögð var um gilið var kölluð Kaupvangsstræti og því fór fólk að kalla gilið Kaupvangsgil og oftar Kaupfélagsgil þar sem þar voru höfuðstöðvar KEA. Einnig var það áður kallað Grúthúsagil af sumum, vegna þess að þar voru sláturhús. Um Grófargilið rann lækuinn, sem myndaði Torfunefið og þar er bryggjan. 

-Þór Sigurðsson á Minjasafni á Akureyrar

Nýjast