Metaðsókn var í Sundlaug Akureyrar á síðasta ári. Þegar rennibrautirnar voru teknar í notkun í júlí 2017 og til ársloka fjölgaði heimsóknum í laugina um 40.000 gesti miðað við sama tíma árið áður. Heildarfjöldi gesta á árinu var um 389 þúsund, sem er töluvert umfram eldra aðsóknarmet.
Þetta kemur fram í aðsendri grein sem Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi og formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs Akureyrar, skrifaði í Vikudag.
„Aukningin hefur haldið áfram á þessu ári og ef fram heldur sem horfir má gera ráð fyrir því að heimsóknir í laugina verði yfir 400 þúsund nú í ár,“ segir Ingibjörg.
Framkvæmdir við sundlaugina hafa staðið yfir um nokkurt skeið. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum við sundlaugalóðina ljúki í júní en þar verður útbúin sólbaðsaðstaða og leiksvæði fyrir börn.
Kostnaðurinn við endurbætur á sundlauginni er komin upp í tæpar 400 milljónir, sem er tvöfalt hærri upphæð en áætlað var í fyrstu. Vegna viðbótarframkvæmda hefur kostnaðurinn hækkað töluvert. Má þar nefna kaldan pott og leiktæki.