04. nóvember, 2007 - 12:34
Fréttir
Það bráðliggur á að verslunarhús Síðu við Kjalarsíðu 1 hverfi af vettvangi. Það segir Páll Alfreðsson framkvæmdastjóri P. Alfreðssonar sem nú stendur í stórræðum á lóðinni, en þar er verið að reisa tvær stórar stúdentablokkir. Hann segir framkvæmdir ganga mjög vel nema hvað nokkrar tafir hafa orðið á byggingu nyrðra hússins, þar sem verslunin Síða stendur. Eins og fram hefur komið hefur Héraðsdómur Norðurlands eystra hafnað kröfu Akureyrarbæjar um að húsnæði Verslunarinnar Síðu verði fjarlægt með aðfararaðgerð. Akureyrarbær mun að öllum líkindum una þessum dómi og semja við viðkomandi aðila um þessi lóða- og húsamál.
"Við getum ekki grafið nægilega fyrir húsinu, því verslunin er fyrir," segir Páll. Hann segir það bagalegt, en vonar að málið leysist sem fyrst en það sé alfarið mál Akureyrarbæjar, „þetta er ekki okkar vandamál, bærinn verður að leysa úr þessum hnút." Verktaki við stúdentaíbúðirnar hefur að sögn Páls skrifað undir bindandi samning um að skila báðum húsunum fullfrágengnum 1. ágúst á næsta ári, en þá stendur til að fyrstu íbúarnir, nemar við Orkuháskólann RES flytji inn í íbúðir þar. „Það er því mikið í húfi og málið þarf í rauninni að leysast ekki seinna en strax," segir Páll. Nánar er fjallað um þetta mál í Vikudegi.