Brýnt að draga úr svifryksmengun á Akureyri

Svifryksmengun hefur verið vandamál Akureyri undanfarin ár og oft mælst yfir heilsuverndarmörkum. My…
Svifryksmengun hefur verið vandamál Akureyri undanfarin ár og oft mælst yfir heilsuverndarmörkum. Mynd/Akureyri.is.

Að mati Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra er aðkallandi að setja í forgang ráðstafanir til að draga úr svifryksmengun í Akureyrarbæ og að skima ástand m.t.t. svifryks víðar. Þetta kom fram á fundi heilbrigðisnefndarinnar í byrjun nóvember. Segir í fundargerðinni að Umhverfisstofnun og Akureyrarbær reki mælistöð á Akureyri og niðurstöður svifryksmælinga í Akureyrarbæ kalli mjög ákveðið á úrbætur að hálfu Akureyrarbæjar (gatnakerfi bæjarins) og Vegagerðar ríkisins (þjóðvegir gegnum Akureyrarbæ).

Í fundargerð nefndarinnar er m.a. lagt til að Akureyrarbær og Vegagerð ríkisins stofni viðbragðsteymi sem fari með stjórn skammtímaaðgerða til að draga úr loftmengun. Svifryksmengun á Akureyri kemur reglulega til umræðu. Fyrir ári síðan kom fram í bókun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands að svifryksvandi í Akureyrarbæ væri lýðheilsuvandamál en svifryk hefur ítrekað mælst yfir heilsuverndarmörkum.  

„Tökum ástandið alvarlega“

Andri Teitsson, formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir í svari við fyrirspurn Vikublaðsins um málið að bæjaryfirvöld séu meðvituð um stöðuna. „Við tökum ástandið alvarlega og höfum rætt það mikið hvernig megi bregðast við. Nú þegar hefur ýmislegt verið gert, svo sem að festa kaup á nýjum götusóp sem er væntanlegur til landsins eftir áramót. Við höfum samið við verkfræðistofu um að gera úttekt á því hvaða efni þetta eru sem mynda ryk og óhreinindi á götunum. Vitneskja um þetta er ákveðin forsenda fyrir að frekar sé hægt að vinna að því að byrgja brunninn, þ.e. vinna gegn því að svifrykið myndist, en ekki bara hugsa um að koma því burt,“ segir Andri.

Samstarf við Eflu vegna svifryksvandans

Útttektin sem Andri vísar í er í samstarfi við Eflu verkfræðistofu og er sýnataka hafin vegna rannsóknar á efnasamsetningu og uppruna svifryks á Akureyri. Á vef bæjarins segir að niðurstöður verða bornar saman við samsetningu svifryks í Reykjavík og út frá því verður meðal annars reynt að meta áhrif negldra hjólbarða, mismunandi hálkuvarnarefna og annarra aðgerða. Að auki verða skoðuð tengsl við veðurfar og mismunandi malbikstegundir. Markmiðið er að safna betri og áreiðanlegri upplýsingum en nú liggja fyrir um svifryk og mengun sem af því stafar og greina hvers vegna styrkur svifryks fer yfir heilsuverndarmörk.

Færanlegur svifryksmælir ekki í kortunum

Í úttekt Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra kemur fram að mikilvægt sé að hafa færanlegan svifryksmæli til að fylgjast með svifryki víðsvegar í Akureyrarbæ. Andri segir að bæjaryfirvöld hafi rætt þann möguleika að hafa annan mæli til að „skima“ svifryk á fleiri stöðum í bænum, „en slíkur mælir kostar yfir 10 milljónir kr. og hefur það ekki komist í forgang ennþá,“ segir hann.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast