Brynhildur tilnefnd til barnabókaverðlauna

Akureyringurinn Brynhildur Þórarinsdóttur aðjúnkt við Háskólann á Akureyri hefur verið tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2007. Brynhildur er tilnefnd fyrir bækurnar Njálu, Eglu og Laxdælu.

 Í fréttatilkynningu frá Félagi skólasafnskennara sem tilnefnir Brynhildi, segir meðal annars að hún endursegi þekktar og vinsælar Íslendingasögur á afar skemmtilegan og aðgengilegan hátt fyrir börn og unglinga, og veitir þeim þannig innsýn í heim fornsagnanna.  Persónur stíga ljóslifandi fram og fróðleiksmolar um sögusvið og sögutíma auka enn á gildi verkanna.  Bækurnar veita kærkomið tækifæri til að kynna sagnaarf Íslendinga innan skóla og utan, og dómnefnd Félags skólasafnskennara telur þær afar verðugt framlag til norrænna barnabókmennta.

Edda – útgáfa hf. gefur bækurnar út.  Njála er til í enskri, norskri og sænskri þýðingu og unnið er að fleiri þýðingum.Brynhildur Þórarinsdóttir er fædd 1970.  Hún er  M.A. í íslenskum bókmenntum og lauk kennsluréttindanámi árið 2005 við Háskólann á Akureyri, þar sem hún starfar nú.  Hún hefur skrifað skáldsögur og smásögur fyrir börn og unglinga og hlotið viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. íslensku barnabókaverðlaunin 2004 fyrir “Leyndardóm ljónsins”, Vorvinda IBBY 2003 fyrir Njálu, og verðlaun fyrir smásögu í samkeppni Félags móðurmálskennara.  Hún er bæjarlistamaður Akureyrar júní 2006-maí 2007.

Norrænu barnabókaverðlaunin eru heiðursverðlaun sem samtök norrænna skólasafnakennara standa að.  Þau hafa verið veitt um árabil og þrisvar fallið Íslandi í skaut; 1992 hlaut Guðrún Helgadóttir þau fyrir bókina Undan illgresinu, 2003 komu þau í hlut Kristínar Steinsdóttur fyrir bókina Engill í Vesturbænum, og 2005 hlaut Ragnheiður Gestsdóttir þau fyrir höfundarferil sinn með sérstakri áherslu á Sverðberann.

 

Verðlaunin verða afhent í Danmörku í júlí næstkomandi, en dómnefnd fundar í lok mars og fulltrúi Íslands þar er Þóra Sjöfn Guðmundsdóttir, skólasafnskennari í Langholtsskóla

Nýjast