Brynhildur til Saga Capital

Brynhildur Ólafsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Samskiptasviðs hjá Saga Capital Fjárfestingarbanka. Hún mun hafa yfirumsjón með markaðsmálum bankans, almannatengslum hans og samskiptum við innlenda og erlenda samstarfsaðila. Brynhildur hefur undanfarin 19 ár aðallega starfað við fjölmiðla, síðustu árin sem yfirmaður erlendra frétta á fréttastofu Stöðvar 2. Hún hefur jafnframt gegnt starfi forstöðumanns Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sinnt stundakennslu í stjórnmálafræði. Brynhildur hefur víðtæka reynslu af alþjóðamálum og alþjóðasamskiptum og hefur meðal annars starfað sem fréttamaður fyrir íslenska, breska og bandaríska fjölmiðla í Mexíkó, á Kúbu og í Bosníu og sem sendifulltrúi Alþjóða Rauða krossins í Hondúras, Pakistan og Afganistan. Hún er útskrifaður stjórnmálafræðingur frá HÍ og er með mastersgráðu í alþjóðastjórnmálum og alþjóðasamskiptum frá Columbia háskóla í New York í Bandaríkjunum.

Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki sem starfar á afmörkuðum sviðum fjármála og veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar til fyrirtækja og fagfjárfesta. Bankinn tekur jafnframt virkan þátt á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum með fjárfestingum fyrir eigin reikning. Saga Capital Fjárfestingarbanki er hlutafélag, stofnað árið 2006 af nokkrum fyrrverandi starfsmönnum íslensku viðskiptabankanna og völdum fagfjárfestum. Bankinn tók formlega til starfa í maí á þessu ári og er fyrsti íslenski bankinn í yfir 100 ár sem stofnaður er frá grunni og hlýtur frá fyrsta starfsdegi fullt starfsleyfi sem fjárfestingarbanki. Eigið fé bankans er nú tæplega 11 milljarðar sem þýðir að Saga Capital er af svipaðri stærðargráðu og BYR og Icebank. Saga Capital verður aðili að öllum norrænu OMX kauphöllunum í byrjun júlí og stefnir að skráningu hlutabréfa félagsins á verðbréfamarkaði innan fimm ára.

Starfsmenn Saga Capital eiga það sammerkt að búa yfir mikilli þekkingu á innlendum og alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Hluthafahópurinn er breiður og öflugur og spannar mjög vítt svið íslensks atvinnulífs. Markmið bankans er að nýta áratuga reynslu starfsmanna til að veita fyrsta flokks faglega þjónustu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum til stofnanafjárfesta og millistórra fyrirtækja. Höfuðstöðvar Saga Capital eru á Akureyri en félagið rekur einnig starfsstöð í Reykjavík. Starfsmenn eru 25.

Nýjast