Bryndís Rún er vel að titlinum komin en árangur hennar á sl. ári er með eindæmum góður. Hún vann til þriggja Íslandsmeistaratitla, í 50 m flugsundi í bæði 25 m laug og 50 m laug og í 100 m flugsundi. Einnig setti Bryndís tvö Íslandsmet á árinu 2009, í 50 m flugsundi og 100 m flugsundi. Á Evrópumeistaramóti unglinga í Prag sl. sumar komst hún annað árið í röð í úrslit og er önnur íslenska stúlkan frá upphafi sem náð hefur að synda í úrslitum á Evrópumeistaramóti. Alls keppti hún á þremur alþjóðlegum mótum erlendis á árinu og vann þar til verðlauna.
Aðrir sem tilnefndir voru í kjörinu og fengu viðurkenningar voru Andrea Ásgrímsdóttir, kylfingur í Golfklúbbi Akureyrar, Bjarki Gíslason, frjálsíþróttamaður UFA, Bjarki Sigurðsson akstursíþróttamaður í KKA, Bragi Óskarsson skotmaður í Skotfélagi Akureyrar, Gauti Elfar Arnarson siglingamaður frá Nökkva, Guðrún Jóna Þrastardóttir fimleikakona í Fimleikafélagi Akureyrar, Hannes Rúnar Hannesson knattspyrnumaður í Hömrunum, Ingvar Þór Jónsson, íshokkímaður í Skautafélagi Akureyrar, Íris Guðmundsdóttir skíðakona í Skíðafélagi Akureyrar, Ragnar S. Ragnarsson akstursíþróttamaður í Bílaklúbbi Akureyrar, Þorbjörn Hreinn Matthíasson hestamaður í Létti og Poitr Kempisty blakmaður frá KA.