Magna Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, segir að það sé mikill fengur að Bryndísi Höllu til liðs við hljómsveitina. Hún sé frábær sellóleikari og einn fremsti einleikari landsins. Magna segir að um ákveðin tímamót sé að ræða hjá SN, en með þessum tónleikum er hljómsveitin að ljúka sínu 17. starfsári. "Þetta verða jafnframt síðustu tónleikar hljómsveitarinnar áður en hún flytur í Hof og við bíðum spennt eftir því að komast þangað."
Magna segir að tónlistin sem flutt verður á tónleikunum í Glerárkirkju eigi að höfða til allra. Fluttur verður Sellókonsert nr. 1 eftir Shostakovich, sem hann samdi fyrir sellóleikarann heimsþekkta Mstislav Rostroporvich, sem frumflutti hann á tónleikum árið 1959. Konsertinn er talinn með erfiðari einleikskonsertum. Einnig verður flutt Sinfónía nr. 4 eftir Mendelssohn, sem kölluð hefur verið ítalska sinfónían og var frumflutt í Lundúnum árið 1933. Tónvísindamenn hafa keppst við að lofsyngja sinfóníuna og sérstaklega lokakaflann sem þykir hreinasti gimsteinn en tónskáldið sjálft sagði þann kafla vera saminn undir áhrifum kjötkveðjuhátíðar í Rómaborg.
Bryndís Halla er hámenntuð í sellóleik og árið 1990 tók hún við stöðu leiðandi sellóleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands, stöðu sem hún gegnir enn. Auk þess að leika með hljómsveitinni hefur Bryndís verið virk sem einleikari og kammermúsíkant bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir leik sinn.
Forsala á tónleikana er á midi.is en ókeypis er fyrir 20 ára og yngri.