Brýn þörf fyrir Aflið á Akureyri

Starfsemi Aflsins á Akureyri, systursamtaka Stígamóta, hefur verið með svipuðum hætti nú í ár og undanfarin ár. Alls eru starfandi 6-7 hópar á vegum samtakanna og hafa samtökin tekið við ríflega 140 samtölum frá fólki sem orðið hefur fyrir kynferðislegu ofbeldi. Aflið hóf nýlega starfsemi í nýju húsnæði, í kjallara Lautarinnar við Brekkugötu, og þar fer vel um alla segir Anna María Hjálmarsdóttir, ein talskvenna Aflsins, en aðstaðan sem þar er í boði er mjög góð. Anna María segir að félagið hafi nýverið opnað heimasíðu til að vekja athygli á starfsemi sinni, þá er í gangi happdrætti til stuðnings samtökunum og eins er nýkominn út bæklingur þar sem starfsemin er kynnt. „Þörfin fyrir þessa þjónustu er mikil og brýnt að fólk viti af okkur, viti hvert það getur leitað eftir aðstoð og sem betur fer gerir fólk það í auknum mæli," segir Anna María.

Nýjast