Brotamenn ítrekað klófestir á nýjar löggæslumyndavélar

Flestar myndavélarnar eru í miðbæ Akureyrar og hafa sannarlega komið að góðum notum. Mynd/Hörður Gei…
Flestar myndavélarnar eru í miðbæ Akureyrar og hafa sannarlega komið að góðum notum. Mynd/Hörður Geirsson.

Löggæslumyndavélar sem settar voru upp á níu stöðum á Akureyri í júní í sumar hafa þegar sannað gildið sitt. Myndavélarnar hafa komið að notum nánast í hverri viku frá því þær voru settar upp. Líkamsárásarmál, fíkniefnamál, týnd börn, skemmdarverk og stolnir bílar eru á meðal þess sem lögreglan á Akureyri hefur upplýst með aðstoð myndavélanna.

„Þetta hefur reynst frábærlega og hjálpað okkur í allskonar málum,“ segir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri, í samtali við Vikudag. „Þónokkur líkamsárásarmál hafa nást á myndavélarnar sem hefði að öðru leyti orðið nánast vonlaust fyrir okkur að upplýsa. Einnig hafa mörg fíkniefnamál upplýst með hjálp myndavélanna. Eitt tilvikið var með þeim hætti að fíkniefnum var hent út úr bíl sem lögreglan var á eftir og það sást greinilega á upptöku. Þá hafa skemmdarverk komist upp. Einnig umferðarmál þar sem stungið er af eftir árekstur. Myndavélarnar hafa líka aðstoðað okkur þegar um falskar tilkynningar hefur verið að ræða.“

„Augu sem eru mikilvæg fyrir okkur“

Það var fyrr á þessu ári sem Akureyrarbær, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra og Neyðarlínan ohf.  gerðu með sér samkomulag um verklag við kaup, uppsetningu og rekstur á löggæslumyndavélakerfi í sveitarfélaginu. Flestar myndavélarnar eru í miðbænum. Tilgangurinn með uppsetningu vélanna var að koma í veg fyrir skemmdarverk og fækka afbrotum almennt, auka öryggi borgaranna og greiða fyrir rannsóknum brota. Jóhannes segir að myndavélarnar hafi einnig gert lögreglu kleift að hafa betur eftirlit með fíkniefnamisferli í bænum.

„Við vitum t.d. númer á ákveðnum bílum sem eru notaðir í að flytja fíkniefni og getum fylgst með betur með því. Einnig höfum við náð að upplýsa um stolin bíl með hjálp myndavélanna og þá eru dæmi um að við höfum fundið týnd börn,“ segir Jóhannes og bætir við: „Þetta er mjög öflugt verkfæri fyrir okkur og kemur að gagni í hverri viku. Þetta eru augu sem eru mikilvæg fyrir okkur að hafa.“

 


Nýjast