01. febrúar, 2007 - 15:03
Fréttir
Brim hf. hefur sent Vikudegi athugasemd, vegna fréttar á forsíðu blaðsins þann 25. janúar sl., um stuðningsyfirlýsingu sjómanna við formann Sjómannafélagsins Eyjafjarðar. Hefur Brim þar með lokið máli sínu um þennan málarekstur. Athugasemdin hljóðar svo: "Brim hf. gerir athugasemd við frétt um svokallaða stuðningsyfirlýsingu sjómanna við Konráð Alfreðsson formann Sjómannafélags Eyjafjarðar. Vill Brim af því tilefni taka fram að félagið hefur ekki og mun ekki hafa áhrif á það hvert starfsmenn greiða gjöld sín. Sá nafnalisti sem okkur hefur verið sýndur er einungis staðfesting sjómanna á gildandi fyrirkomulagi um félagsaðild. Brim hefur aldrei gert athugasemdir við í hvaða stéttarfélagi starfsmenn fyrirtækisins eru. Kjósi menn að túlka það sem stuðningsyfirlýsingu við ráðandi öfl í Sjómannafélagi Eyjafjarðar þá er það frjálsleg túlkun sem varðar Brim ekkert, nema til áréttingar á því sem féhirðir fyrirtækisins vissi þegar. Brim biðst undan því að taka þátt í þeim hasar sem einkennir gjarnan viðbrögð Sjómannafélags Eyjafjarðar, og kýs að starfa faglega þar sem það fær frið til þess."
Athugasemd ritstj.
Vegna athugasemdar Brims getur Vikudagur viðurkennt að um oftúlkun hafi verið að ræða, þegar sagt var að sjómenn á togurum félagsins hefðu skrifað undir stuðningsyfirlýsingar við Konráð Alfreðsson og Sjómannafélag Eyjafjarðar. Hið rétta er eins og fram kemur hér að ofan, voru sjómennirnir að staðfesta gildandi fyrirkomulag um félagsaðild. Hins vegar lítur Konráð Alfreðsson á þann gjörning sem ótvíræðan stuðning við sig og félagið.