Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í gær með sjö atkvæðum gegn fjórum, tillögu skipulagsnefndar um breytingu á deiliskipulagi lóðanna 1-3 og 5-9 við Hólamtún í Naustahverfi. Eftir breytinguna fá Hólmatún 1 og 3-5 húsnúmerin 3-5 og 5-9, þar sem húsum fjölgar. Húsagerðir á reitum C1 og C2 breytast. Í stað tveggja hæða verslunar- og þjónustuhúss auk kjallara á reit C1 koma tvö tveggja hæða fjölbýlishús með alls 8 íbúðum. Í stað fjögurra hæða fjölbýlishúss með 25-30 íbúðum og bílgeymslukjallara á reit C2 koma þrjú tveggja hæða fjölbýlishús, alls 12 íbúðir. Engir kjallarar né bílgeymslur verða í húsunum. Byggingarreitir stækka, lóðarstærðir breytast og bílastæðum fækkar úr 79 í 41 stæði.
Þrjá athugasemdir bárust við deiliskipulagsbreytinguna í auglýsinaferli, m.a. frá hverfisnefnd Naustahverfis. Á fundi bæjarstjórnar í gær lagði Sigfús Arnar Karlsson B-lista fram eftirfarandi bókun: Hverfisnefnd Naustahverfis gerði athugasemd við umrædda breytingu á deiliskipulaginu sem nú er tekið fyrir. Þrátt fyrir að hverfisnefndir séu hvorki með skipunarbréf né ráðgefandi í málefnum Akureyrarkaupstaðar finnst mér að hlusta beri á athugasemdir þeirra eins og kostur er. Að mínu mati eru þær athugasemdir sem hverfisnefnd Naustahverfis gerir á rökum reistar og tek ég undir þær af heilum hug. Áheyrnarfulltrúi B-lista í skipulagsnefnd bókaði mótmæli við tillögunni og ég mun taka undir þau mótmæli og greiði atkvæði gegn þessari tillögu.