Breyting á deiliskipulagi í Búðargili verði samþykkt

Fjórar athugasemdir bárust við breytingu á deiliskipulagi í Búðargili á Akureyri en á svæðinu stendur til að fjölga frístundahúsum umtalsvert. Í svari skipulagsnefndar við athugasemdunum kemur m.a. fram að allar fyrirhugaðar breytingar séu innan þess svæðis sem skilgreint sé í aðalskipulagi og í staðfestu deiliskipulagi og leggur nefndin því til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt.  

Jóhannes Árnason fulltrúi VG í skipulagsnefnd lagði fram bókun á fundi nefndarinnar í vikunni, þar sem fram kemur að hann styðji það að staðfesta deiliskipulagstillöguna. Áður hafði hann lýst andstöðu við að úthluta þessu svæði undir frístundabyggð. "Þá óttaðist ég að svæðið yrði illa nýtt og til yrði sundurlaus byggð. Einnig óttaðist ég að slík byggð ætti ekki heima á þessu svæði. Hér er verið að afgreiða breytingu á deiliskipulagi en ekki verið að ráðstafa svæðinu undir þessa starfsemi í fyrsta sinn. Ég fæ ekki ráðið við að uppbyggingin er hafin á svæðinu. Ég er sammála þeim breytingum sem nú eru til afgreiðslu vegna þess að hér er verið að auka nýtingu á svæðinu og tryggja samfellda starfsemi og þjónustu, m.a. auka möguleika á eftirliti. Þórunnarstræti er tengibraut og atvinnurekstur og ferðaþjónusta af þessu tagi á vel heima í nálægð við slíka götu. Ég tel að hér sé verið að skapa aðstæður fyrir öflugan atvinnurekstur í ferðaþjónustu," segir í bókun Jóhannesar

Eftirfarandi athugasemdir bárust:
1) Þórunn Þorgilsdóttir og Sævar Jónatansson, Miðteigi 3, dags. 6. október 2009.
Gagnrýnt er að bæjarstjórn leggi til breytingar á þessu svæði. Þau mótmæla harðlega þeim breytingum sem í tillögunni felast og átelja bæjarstjórn fyrir þessi vinnubrögð. Helst er mótmælt fjölgun gistirýma, stækkun frístundahúsa, fjölgun bílastæða og að reisa megi hús á tveimur hæðum.
2) Kristín Jónsdóttir og Lárus Sverrisson, Miðteigi 1, dags. 12. október 2009.
Mótmælt er hámarksstærð frístundahúsanna, auknu byggingarmagni, fjölgun gistirýma, stækkun byggingarreita, að skjólveggi verði hægt að reisa utan byggingarreita og möguleika á veitingaaðstöðu. Þau telja svæðið ekki bera meiri umsvif innan þess. Ónæði frá svæðinu fyrir FSA, kirkjugarðinn og nágranna er óþolandi en töluvert ónæði er af þeim 5 húsum sem þegar er búið að reisa.
Sumarhúsabyggð á alls ekki heima í miðri íbúabyggð og alls ekki við hlið sjúkrahúss eða kirkjugarðs.
3) Lísa B. Sigurðardóttir og Eiríkur Y. Sigurgeirsson, Miðteigi 7, dags. 13. október 2009.
Mótmælt er auknu byggingarmagni, þjónustumiðstöð með möguleika á veitingaaðstöðu, stækkun byggingarreita, fjölgun bílastæða og gistirýma, stækkun frístundahúsa, að byggt verði á tveimur hæðum og að skjólveggir verði reistir utan byggingarreits. Þau telja svæðið ekki bera þá stækkun og þenslu sem tillagan gerir ráð fyrir. Aukin bílaumferð og ónæði verða óþolandi fyrir nágrennið. Þau hús sem eru þegar reist taka útsýni frá þeim og mótmæla því alfarið frekari stækkun á byggingum. Þau telja að sumarbústaðabyggð eigi ekki heima inni í íbúðabyggð og allra síst milli sjúkrahúss og kirkjugarðs.
4) Jónas Helgason og Guðrún Bjarnadóttir, Miðteigi 11, dags. 12. október 2009. Þ
au mótmæla þeim breytingum sem tillagan gerir ráð fyrir vegna aukinnar umferðar umfram það sem svæðið ber með góðu móti. Umferð og ónæði af orlofshúsabyggð er með öðrum hætti og á öðrum tíma en af íbúðabyggð og á ekki að stuðla að því svo nærri íbúðabyggð og sjúkrahúsi. Því óska þau eftir að fallið verði frá þessum tillögum.


Svör við athugasemdum.
1) Allar fyrirhugaðar breytingar eru innan þess svæðis sem skilgreint er í aðalskipulagi og í staðfestu deiliskipulagi. Svæðið er því óbreytt að umfangi, aðkomuleiðum og gatnakerfi. Hámarkshæð húsa er óbreytt og er því ekki um að ræða neina frekari skerðingu á útsýni að ræða. Hávaxin tré sem nú eru á vesturjaðri svæðisins munu víkja og því mun útsýni til austurs aukast frá því sem nú er. Tekið skal fram að ekki er um að ræða fjölgun á fjölda húsa á svæðinu heldur er íbúðaeiningum að fjölga og þær hafðar minni. Við það opnast möguleikar á fjölbreyttari markhópum til útleigu á húsunum. Fjölgun bílastæða er í samræmi við það en skipulagsnefnd telur að svæðið beri þá fjölgun.
Heimilt er að byggja kjallara og hæð á A reit en þar er landhalli mikill gagnvart götu. Tekið skal fram að húsin hækka ekki í landinu við þessa breytingu og eru í samræmi við fyrri samþykkt um hámarkshæð.
2) Engar athugasemdir hafa borist frá forsvarsmönnum Kirkjugarða Akureyrar eða FSA vegna uppbyggingar á svæðinu og því má ætla að ónæði sé í lágmarki frá starfseminni. Ekki er gert ráð fyrir hefðbundnum veitingastað á svæðinu og því um misskilning að ræða. Hinsvegar er og var gert ráð fyrir þjónustuhúsi á reit A þar sem hægt verði að geyma skíði og annan búnað sem gestir hafa með sér. Þar er einnig gert ráð fyrir þvottaaðstöðu, sorpgeymslu og móttökuaðstöðu fyrir gesti.
Sjá annars lið nr. 1 sem svar við athugasemdinni.
3) Sjá lið nr. 1 og 2 sem svar við athugasemdinni.
4) Sjá lið nr. 1 og 2 sem svar við athugasemdinni.

Nýjast