Breyting á aðalskipulagi Eyja- fjarðarsveitar vegna efnistöku

Á fundi skipulagsnefndar í vikunni var lögð fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005 - 2025. Breytingin fellst í að bætt er inn á skipulagið 15 nýjum efnistökusvæðum. Jafnframt var lögð fram umhverfisskýrsla skipulagsáætlunarinnar unnin af verkfræðistofunni Eflu.  

Nokkrar athugasemdir voru gerðar við umhverfisskýrsluna og sveitarstjóra falið að koma þeim á framfæri. Þá var ákveðið að leyfa ekki efnistöku úr austurkvísl við Staðarey. Varðandi efnistöku í landi Hvamms kom fram tillaga formanns um að fella hana einnig út af aðalskipulagi. Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur og er svohljóðandi:

"Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar leggur til að sprengináma í Hvammi verði felld út úr fyrirliggjandi tillögu að breytingu á Aðalskipulagi. Fyrir liggur að upphaflegar forsendur að nýta meginþorra efnisins við lengingu Akureyrarflugvallar eru brostnar. Jafnframt liggur fyrir að náman verður mikið lýti í landslagi m.a. fyrir flugfarþega að og frá Akureyrarflugvelli. Þá liggur vinnslusvæði nærri einu fjölsóttasta utivistarsvæði landsmanna sem er Kjarnaskógur. Ekki er um afturkræfa framkvæmd að ræða né heldur endurnýjanlega auðlind. Þessi afgreiðsla er samhljóða niðurstöðu umhverfisnefndar Eyjafjarðarsveitar. Jafnframt liggja fyrir ábendingar um óheppilega nálægð við Kjarnaskóg og næstu bújörð sbr. athugasemdir frá skipulagsnefnd Akureyrar október 2008, umhverfisnefnd Akureyrar október 2008 og nágrannabýlinu Vöglum í Eyjafjarðarsveit ágúst 2008. Í nýunninni umhverfisskýrslu Eflu verkfræðistofu koma fram ábendingar sem styðja ofangreindar athugasemdir. Einnig má bæta hér við að upplýsingar hafa borist um tjón á húsi á Akureyri þar sem uppgefin vegalengd frá sprengistað að húsi er um 1,5 km."
Skipulagsnefnd samþykkti að auglýsa tillögu að aðalskipulagsbreytingu svo breytta.

Afgreiðsla skipulagsnefndar var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar daginn eftir. Bjarni Jónsson og Eik Elfarsdóttir frá Veiðimálastofnun mættu á fundinn og gerðu nánari grein fyrir skýrslu sinni um efnistöku á vatnasvæði Eyjafjarðarár.  Sveitarstjórn samþykkti að vísa málinu aftur til umfjöllunar hjá skipulagsnefnd í samræmi við umræður á fundinum.

Nýjast