Brenna og flugeldasýning á Akureyri á gamlárskvöld

Hin árlega áramótabrenna á Akureyri verður á sínum stað við Réttarhvamm á gamlárskvöld, auk þess sem boðið verður upp á glæsilega flugeldasýningu. Kveikt verður í brennunni kl. 20.30 en flugeldasýningin hefst kl. 21.00. Það eru Vinir Akureyrar sem standa fyrir þessari uppákomu nú líkt og í fyrra, í samstarfi Akureyrarstofu, Súlur, björgunarsveitina á Akureyri og ýmis fyrirtæki, sem standa straum af kostnaði við flugeldasýninguna.  

Davíð Rúnar Gunnarsson, einn Vina Akureyrar, segir vel hafi gengið að safna peningum fyrir flugeldasýningunni og að nú hafi fleiri aðilar en verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og fleiri lagt verkefninu lið. Leitað hafi verið m.a. til verktaka í bænum, sem hafi einnig lagt sitt af mörkum.

Davíð Rúnar segir að leitað hafi verið eftir bakstuðningi frá bænum, þar sem tap hafi orðið á fjölskylduhátíðinni Einni með öllu um síðustu verslunarmannahelgi, sem Vinir Akureyrar standa einnig fyrir. Um síðustu áramót leit út fyrir að ekkert yrði af flugeldasýningu á gamlárskvöld en þá tóku Vinir Akureyrar málin í sínar hendur og söfnuðu fyrir flugeldasýningu.

Nýjast