„Boltinn er núna hjá þingmönnum“
Fulltrúar Norðurþings og stéttarfélagsins Framsýnar funduðu með fulltrúum flugfélagsins Ernis á mánudag til að ræða framtíð áætlunarflugs til Húsavíkur.
Upp er komin sú staða að mögulega hætti Ernir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur um næstu mánaðarmót eins og komið hefur fram en flugfélagið hefur haldið úti flugi á milli staðanna frá árinu 2012.
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar segir í samtali við Vikublaðið að hann hafi vilja koma á fundi milli þerra aðila sem þetta mál snerti mest.
Kalla eftir ríkisaðstoð
„Það sem við ræddum var meðal annars það að flug á Íslandi er allt ríkisstyrkt nema flugið til Húsavíkur og það kemur fram hjá Erni að ef það á að halda þessu flugi gangandi þá þurfi að koma til stuðningur eins og með önnur flug,“ segir Aðalsteinn og bætir við að ekki megi gleyma því að einnig séu ríkisábyrgðir á ákveðnum flugleiðum í gegn um Icelandair.
„Þetta er ekkert flókið og þetta er það sem við erum að vinna í og kanna hvort þetta sé möguleiki og hvort stjórnvöld séu tilbúinn til þess að líta á þetta sem samgöngur fyrir okkur eins og aðra á Íslandi,“ segir hann og bendir á að Samkeppniseftirlitið hafi á sínum tíma haft áhyggjur af þessu þegar það skilaði inn skýrslu um ríkisstyrki eða ábyrgð í fluginu, að það gæti orðið til þess að minni félögin ættu erfitt. Að samkeppnisstaðan yrði skekkt. „Og það er allt komið fram. Maður veltir sér hvort að stjórnvöld ætli sér ekkert að gera með aðvaranir samkeppniseftirlitsins á sínum tíma.“
Funduðu með þingmönnum
Fulltrúar Norðurþings og Þingeyjarsveitar ásamt Aðalsteini fyrir hönd Framsýnar funduðu með nokkrum þingmönnum kjördæmisins á mánudagskvöld þar sem sjónarmiðum heimafólks var komið á framfæri.
„Við voru að leggja upp ákveðna áætlun um það hvort ekki sé hægt að koma að því að koma þessari flugleið inn í svipað kerfi og annars staðar á landinu. Flugleiðir til smærra staða á landinu eru ríkisstyrktar og við viljum komast inn í það kerfi enda mikilvæg samgöngubót fyrir okkur hér á svæðinu,“ segir Aðalsteinn og bætir við að ekki megi gleyma því að Húsavíkurflugvöllur þjónusti ekki aðeins Húsavíkinga heldur einnig íbúa alla leið austur á Þórshöfn.
„Niðurstaðan var sú að við lögðum upp með plan sem byggir á því að heimamenn taki á þessu máli með flugfélaginu og ríkinu en boltinn er núna hjá þingmönnum hvort þeir vilji vera með okkur í liði eða ekki.“
Hvorki bjartsýnn né svartsýnn
Aðalsteinn segir að ekki hafi fengist loforð frá þingmönnum en hann hafi þó fundið ákveðinn hljómgrunn og skilning. Hann treysti því að þingmenn leggist á árarnar.
„Svo eru ýmsir aðrir þræðir í pólitíkinni, einhverjir vilja eflaust sjá frekar meiri umferð í gegn um Vaðlaheiðargöng og efla flugið frá Akureyri. Þannig að ég er hvorki bjartsýnn eða svartsýnn en treysti því bara að unnið verði í þessu,“ segir Aðalsteinn en viðurkennir að margt verði að ganga upp ef flugið á ekki að leggjast af um mánaðarmót.
„Þetta er tvísýnt hvort flug heldur áfram um mánaðamót eða ekki. Málið er grafalvarlegt, ef það tekst ekki að finna einhverja framtíðarlausn þá verður ekkert flogið um Húsavíkurflugvöll eftir næstu mánaðamót,“ segir Aðalsteinn og bætir við að þetta snúist ekki aðeins um áætlunarflug.
„Þetta er líka flugvöllur sem sinnir sjúkraflugi. Það má ekki gleyma því að þetta snýst ekki aðeins um áætlunarflugið. Þetta snýst um framtíð flugvallarins og þar með sjúkraflugsins sem er okkur gríðarlega dýrmætt,“ segir Aðalsteinn að lokum.
Athugasemdir