Bókin Íslensk knattspyrna komin út í 29. sinn

Íslensk knattspyrna 2009, eftir Víði Sigurðsson íþróttafréttamann, er 29. bókin í samnefndum bókaflokki sem hóf göngu sína árið 1981. Mjög ítarlega er fjallað um efri deildir karla og kvenna á Íslandsmótinu, einnig um neðri deildirnar, bikarkeppnina, landsleiki Íslands í öllum aldursflokkum, Evrópuleiki félagsliða, um alla yngri flokkana, atvinnumennina erlendis, vetrar- og vormótin, og allt annað sem tengist íslenskri knattspyrnu.  

Bókaútgáfan Tindur gefur bókina út. Íslensk knattspyrna 2009 er 240 blaðsíður, þar af 80 í lit, og í henni er fjallað um allt sem viðkemur fótboltanum á Íslandi á árinu 2009. Í bókinni er jafnframt að finna mjög ítarlega tölfræði um lið og leikmenn, félagsliða og landsliða, litmyndir af meistaraliðum í öllum flokkum á Íslandsmótinu og öllum liðum í efstu deild karla. Þá eru í bókinni ítarleg viðtöl við Atla Guðnason úr FH, Sif Atladóttur úr Val, Ólaf Jóhannesson landsliðsþjálfara karla og Sigurð Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfara kvenna.

Viðurkenningar frá Tindi

Í desember 2008 veitti bókaútgáfan Tindur viðurkenningar þegar Íslensk knattspyrna 2008 kom út. Þá voru heiðraðir tveir leikmenn fyrir að hafa lagt upp flest mörk fyrir samherja sína, annars vegar á árinu 2008 og hinsvegar samanlagt frá árinu 1992. Tryggvi Guðmundsson og Guðmundur Benediktsson tóku við þessum viðurkenningum. Ennfremur voru í fyrsta skipti afhent sérstök heiðursverðlaun Tinds fyrir frábæra frammistöðu á árinu og þau hlaut Katrín Jónsdóttir fyrir hönd kvennalandsliðs Íslands.

Þessar viðurkenningar voru nú veittar öðru sinni við útkomu bókarinnar um íslenska knattspyrnu. Nú voru heiðraðir þeir þrír leikmenn sem lögðu upp flest mörk í úrvalsdeild karla, Pepsi-deildinni, á keppnistímabilinu 2009. Þar er byggt á samantekt Óskars Ó. Jónssonar íþróttafréttamanns sem hefur skráð stoðsendingar í deildinni allt frá árinu 1992 og hana er að finna á bls. 85 í bókinni Íslensk knattspyrna 2009. Efstu menn voru Matthías Vilhjálmsson, FH, með 11 stoðsendingar, Guðmundur Benediktsson, KR, með 10 og Gunnar Örn Jónsson, KR, með 10. Ennfremur eru heiðursverðlaun Tinds afhent félagi sem þótti ná afar athyglisverðum árangri á árinu 2009. Knattspyrnudeild Selfoss sem hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir frábæra frammistöðu þar sem meistaraflokkur karla hjá félaginu vann sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti

Nýjast