Bókamarkaðurinn opnar á Akureyri á morgun

Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda hefst á Akureyri á morgun, miðvikudaginn 24. mars og stendur til þriðjudagsins 6. apríl. Lokað er föstudaginn langa og páskadag. Markaðurinn er á sama stað og undanfarin ár, við hlið Bakarísins við brúna, Gleráreyrum 2, rétt við Glerártorg. Opið er alla daga, jafnt virka daga sem um helgar, frá 11 ─ 18.  

Bókamarkaðurinn á Akureyri var endurvakinnn fyrir tveimur árum og hefur margeflst á stuttum tíma. Úrval bóka hefur aukist mikið og er nú á fimmta þúsund titlar í boði. Þetta hefur mælst vel fyrir því bókelskir Norðlendingar allt frá Húnavatnssýslum í vestri til Öxafjarðar í austri hafa steðjað í höfuðstað Norðurlands til bókakaupa. Nýafstaðinn bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda í Perlunni tókst með miklum ágætum. Þar sem metsala varð á markaðinum 2009 voru vonir hóflegar um árangur nú í ljósi efnahagsástandsins. Það kom hins vegar öllum á óvart að salan var á svipuðum nótum nú og árið 2009 og virtist þar muna um að kappkostað var að bæta úrval og laða að útgefendur sem ekki höfðu haft sig mikið frammi á markaðnum áður.

Bækur og bóklestur njóta mikilla vinsælda í íslensku samfélagi og eins og kemur fram í útlánatölum bókasafna og nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar á menningarneynslu. Þar sögðust 82% aðspurðra hafa lesið bók sér til ánægju síðustu 12 mánuði. Niðurstöður úr árlegri könnun Capacent Gallup fyrir Félag íslenskra bókaútgefenda um neytendahegðun á bókamarkaði sýna að góður meirihluti aðspurða, 64,5%, kaupir í það minnsta eina bók á ári. Það vekur einnig athygli í könnunni að 45,1% aðspurðra kaupa fleiri en 3 bækur á ári og að 21,2% kaupa fleiri en sex bækur á ári. Þessar niðurstöður eru ekki fyllilega sambærilegar við niðurstöður úr könnunum fyrir bankahrunið 2008 vegna ólíkrar aðferðafræði, en þær sýna mætavel að markaður fyrir íslenskar bækur stendur styrkur.

Í fyrsta sinn efnir Félag íslenskra bókaútgefenda nú til bókamarkaður á Austurlandi. Hann verður haldinn á Egilsstöðum 29. apríl til 9. maí og verður með svipuðu sniði og Akureyrarmarkaðurinn. 

Nýjast