Böðin flýta fyrir framkvæmd á göngu-og hjólastíg

Frá Svalbarðsseyri og horft út Eyjafjörð.
Frá Svalbarðsseyri og horft út Eyjafjörð.

Fyrirhugaðar áætlanir um byggingu baða á Ytri Varðgjá í Vaðlaheiði flýtir fyrir framkvæmdum á nýjum göngu-og hjólastíg milli Svalbarðsstrandarhrepps og Akureyrar. Þetta kemur fram í pistli Bjargar Erlingsdóttir sveitastjóra í Svalbarðsstrandarhreppi.

Sveitarfélagið ákvað sl. haust að klára undirbúningsvinnu vegna lagningar göngu- og hjólastígs á árinu 2021, ákveða legu stígsins, semja við landeigendur og ganga frá hönnun og fjárhagsáætlun og vinna að fjármögnun. Unnið var út frá því að fyrsti áfangi verksins, stígur milli Leirubrúar og Vaðlaheiðarganga yrði unninn í samstarfi við Norðurorku og fyrirhugaðan flutning á köldu vatni úr Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar. Fyrsti hluti átti að komast í framkvæmd árið 2022.

Sú breyting hefur orðið á að fyrirhugað er að byggja upp böð á Ytri Varðgjá þar sem heitt vatn úr Vaðlaheiðargöngum verður nýtt og kalla þessar áætlanir á lagningu leiðslu fyrir heitt og kalt vatn frá göngunum að baðstaðnum. „Viðbúið er að verkefnið eigi eftir að ganga hratt fyrir sig þegar þörf er komin á flutningi vatnsins og vonandi náum við að byggja upp göngu- og hjólastíg að Svalbarðseyri á næstu tveimur til þremur árum,“ segir Björg.

Þriðji áfangi göngu- og hjólastígs liggur frá Svalbarðseyri og gatnamótum í Víkurskarði og gert ráð fyrir að farið verði í þann áfanga í beinu framhaldi. „Hönnun göngu- og hjólastígs, fjármögnun og frágangur er stórt verkefni og vonandi verðum við komin vel áleiðis í lagningu stígsins í lok árs,“ segir í pistli sveitarstjóra.

Gert er ráð fyrir að stígnum verði skipt upp í þrjá þætti; Akureyri-Vaðlaheiðargöng, Vaðlaheiðargöng- Svalbarðseyri og loks Svalbarðseyri-Garðsvík. Mun stígurinn tengjast stígakerfum Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar í framtíðinni.

 


Nýjast