Davíð Rúnar Gunnarsson, einn Vina Akureyrar, sagði að ekki hafi komið annað til greina af þeirra hálfu en að bjóða upp á veglega flugeldasýningu á gamlárskvöld, líkt og undanfarin ár. Davíð sagði að það hefði ekki tekið langan tíma að fá aðila til samstarfs eftir að hann gekk í málið.
Leonard Birgisson björgunarsveitarmaður sagði í frétt Vikudags í gær, að undanfarin ár hafi nokkrir stórir styrktaraðilar komið að þessu en um síðustu áramót var ekki um slíkt að ræða. "Nokkur fyrirtæki, Norðlenska, Vífilfell, Kristjánsbakarí og Brim, gerðu okkur kleift að skjóta upp með hefðbundnum hætti. Þessi stuðningur dugði reyndar ekki fyrir útlögðum kostnaði en við ákváðum samt að halda sýninguna með hefðbundnum hætti og greiða sjálfir það sem uppá vantaði," sagði Leonard
Hann sagði að flugeldasýningar á Akureyri hafi ekki verið tekjulind fyrir Súlur og undanfarin ár hafi sveitin náð kostunaraðilum til að greiða þann kostnað sem til fellur vegna flugeldasýninga og náð að halda við þeim búnaði sem til þarf. "Það er nokkuð merkilegt að í mörgum tilfellum telja fyrirtæki að þeirra framlag til flugeldasýningar sé beinn styrkur til okkar en það er því miður ekki þannig," sagði Leonard ennfremur.