Boðið upp á fjallaferðir fyrir ljósmyndaáhugafólk

Sigurður Baldursson hefur í samvinnu við Pedromyndir á Akureyri, verið að skipuleggja fjallaferðir á Norðurlandi fyrir ljósmyndaáhugafólk. Þrír vanir ljósmyndarar verða með í ferðunum, þeir Sigurgeir Haraldsson, Lára Stefánsdóttir og Þórhallur Jónsson, sem munu veita aðstoð og leiðbeina fólki við ljósmyndun.  

Sigurður segir ljósmyndaferðirnar hafa fengið góðan hljómgrunn. „Ljósmyndaáhuginn hefur verið að aukast um allan heim og einnig á Íslandi síðasta árið og þetta fær góðar undirtektir. Við erum búin að leggja mikla vinnu í þetta og skoða hentuga staði til að fara á og höfum mikinn metnað í gera þetta sem flottast," segir Sigurður. Ferðirnar eru dagsferðir sem taka um 10-12 tíma og verður farið í fyrstu ferðina þann 5. september nk. Allar frekari upplýsingar um ferðirnar má nálgast á heimsíðunni www.extreme.is. Sigurður lenti í slæmu slysi þann 19. júlí sl. þegar hann klemmdist illa á milli bílsins og kerru og lá á milli heims og helju á sjúkrahúsi um tíma en er óðum að jafna sig eftir slysið. „Ég er svona upp og niður. Þetta var nokkuð slæmt slys þó ég beri mig hinsvegar vel. Ég þakka fyrst og fremst góðri meðferð á Landspítalanum. Ég held að það hafi gert útslagið hvað ég er á hraðri og góðri leið." Sigurður hefur haft afleysingamenn hjá sér í sumar þar sem hann hefur sjálfur ekki getað farið í langferðir. Hann kveðst ekki hafa verið smeykur við að setjast í bílstjórasætið að nýju eftir slysið. „Nei nei, ég myndi alveg treysta mér til þess að stökkva út úr flugvél með fallhlíf ef ég þyrfti þess," segir Sigurður hvergi banginn.    

Nýjast