Ég var í dönsku tíma og þurfti að fara upp á borð til að kveikja á skjávarpa. Þegar ég hoppaði niður, lagði ég vinstri höndina ofan á blýantinn sem stóð upp úr yddara. Blýanturinn hafði verið yddaður báðum megin og hann stakkst einfaldlega í gegnum lófann á mér. Þannig lýsir Rökkvi Rögnvaldsson, nemandi í 10. bekk Brekkuskóla á Akureyri, óvenjulegri uppákomu í síðustu viku. Hann segist ekki hafa fundið mikið til, en sjokkið hafi verið mun meira. Þegar ég tók eftir því að blýanturinn stóð í gegnum lófann var mér frekar brugðið. En skólafélagarnir og kennarinn voru eiginlega í meira sjokki.
Kaupir næst blýant með strokleðri
Þar sem ekkert blæddi úr lófanum, héldu margir að um grín væri að ræða. Ég fór t.d. í félagsmiðstöðina daginn eftir atvikið og þá sögðu allir: Ha? Gerðist þetta í alvörunni?, segir Rökkvi og Rögnvaldur, faðir hans bætir við: Vinur okkar kommentaði á þetta og sagði að ef við hefðum sett smá blóð í lófann hefði þetta kannski verið raunverulegt. Rökkvi segist hafa lært sína lexíu eftir uppákomuna. Ég hugsa að ég kaupi mér næst blýant með strokleðri öðrum megin. Þá er minni hætta á að ég yddi báða enda.
Nánar er rætt við Rökkva í prentútgáfu Vikudags. Einnig er rætt við föður hans, Rögnvald Rögnvaldsson
throstur@vikudagur.is