Blautasta N1-mótið í áraraðir

Eftir sóríka byrjun á N1-mótinu hefur rignt duglega á mótsgesti. Mynd/Þröstur Ernir
Eftir sóríka byrjun á N1-mótinu hefur rignt duglega á mótsgesti. Mynd/Þröstur Ernir

„Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé blautasta N1-mótið í áraraðir. Elstu menn muna varla eftir öðru eins,“ segir Gunnar Gunnarsson einn af skipuleggjendum N1-mótsins í fótbolta sem fram fer þessa dagana á KA-svæðinu á Akureyri. Mótið hófst á miðvikudaginn og stendur fram á laugardag. Talsverð rigning hefur verið síðustu daga og er búist við áframhaldandi rigningu á morgun.

Gunnar segir að vellirnir séu blautir og þungir og grasið fari illa í slíku veðri.

„En við höldum okkar striki og það er ekkert á döfinni að breyta dagskránni. Við starfsmenn leggjumst á eitt við að halda þessu gangandi,“ segir hann. 

Strákar í fimmta flokki eru í aðalhlutverki á mótinu og segir Gunnar að þeir kippi sér lítið upp við veðrið. „Þeir eru alsælir en eflaust eru einhverjir aðrir sem bölva bleytunni. En það er ekkert við þessu að gera og lítið í boði nema gera það besta úr stöðunni.“

throstur@vikudagur.is

Nýjast