Guðmundur Baldvin Guðmundsson skrifar
Óhætt er að segja að allnokkur samstaða ríki í bæjarstjórn um þá framtíðarsýn sem sett er fram í áætlun næstu þriggja ára fyrir Akureyrarbæ, en áætluninni gerir ráð fyrir því að framkvæmdir í A-hluta verði nokkuð hóflegar og dregið verði úr skuldum.
Stefnt að lækkun skulda
Ég hef margoft bent á, í umræðum um fjárhag bæjarins, að mikilvægt sé að draga úr skuldum og treysta þar með rekstur bæjarins. Hef ég í því sambandi vitnað í fjármálareglur sveitarfélaga, en þar eru sett þau viðmið að skuldir sveitarfélaga megi ekki vera umfram 150% af tekjum, en í það hefur stefnt hjá okkur hægt og bítandi. Í áætluninni er hins vegar taflinu snúið við og stefnt að því að þetta hlutfall verði komið niður í um 110% í árslok 2015 og er það vel.
Að sjálfsögðu er hér einungis um áætlun að ræða og ýmis ljón á veginum. Áfram þarf að gæta aðhalds í öllum rekstri en afar mikilvægt er að reynt verði að komast hjá frekari niðurskurði í skóla- og félagsmálum. Kröfum um frekari hagræðingu þarf því að mínu mati að beina að þjónustuframboði sem okkur ber ekki lagaleg skylda til að veita. Þá ríkir alltaf óvissa um verðlagsþróun og framtíðartekjur í slíkum áætlunum en sem betur fer virðist atvinnuástand á svæðinu vera á réttri leið.
Framkvæmt í fráveitu og félagsmálum
Framkvæmdir í áætlun fyrir árin 2013-2015 eru nokkuð í takt við það sem ég hef viljað sjá. Nú er stefnt að því að ráðast í framkvæmdir við fráveitu sem er afar brýnt, úrræði vegna skammtímavistunar fatlaðra verða leyst með nýrri byggingu og bætt verður úr brýnni húsnæðisþörf fatlaðra ungmenna. Allt eru þetta framkvæmdir sem ég og kollegar mínir í minnihlutanum höfum talað fyrir. En að sjálfsögðu er ýmislegt umdeilanlegt. Farið verður í framkvæmdir strax á næsta ári við gervigrasvöll á KA svæði, sem ég hef viljað eyrnamerkja sem afleidda framkvæmd vegna umdeildar Dalsbrautar. Því skal þó að haldið til haga að samningur um framkvæmdir á KA svæði er opinn og vil ég sjá að með þessum framkvæmdum sé settur punktur fyrir aftan i-ið í þeim samningi. Þá eru settar inn í áætlun 300 milljónir á árunum 2014-2015 vegna óskilgreindra framkvæmda í íþrótta- og æskulýðsmálum sem ég set spurningarmerki við. Þó held ég að við verðum þarna að horfa til framkvæmda fyrir siglingaklúbbinn Nökkva, en sú framkvæmd getur tengst bæði fegrun strandlengjunnar við Pollinn og væntanlegrar nýtingar á jarðvegi úr Vaðlaheiðargöngum. En framhjá því verður ekki horft að mikið hefur verið byggt og bundið í steinsteypu í íþróttamannvirkjum á liðnum árum og ég trúi að ekkert samfélag í heiminum sem telur 18 þúsund íbúa veiti jafn fjölbreytta möguleika og tækifæri til íþróttaiðkunar og Akureyri. En steinsteypu fylgir framtíðarrekstur og því tel ég afar mikilvægt að staldra nú við og meta þörf og móta stefnu til framtíðar í þessum málaflokki.
Langtímaáætlun nauðsynleg
Á málþingi um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem haldið var hér á Akureyri s.l. föstudag kom fram, í tillögu nefndar um málið, að áhersla verði lögð á vandaða vinnu við langtímaáætlanir sveitarfélaga. Ég hef ítrekað, í máli mínu um fjárhagsáætlanir, kallað eftir efndum á loforði L-listans um að sest verði yfir og unnið að gerð 10 ára áætlunar. Ég tel að það svigrúm sem nú er að skapast, í kjölfar mikilla framkvæmda liðinna ára og með hliðsjón af framkvæmdaáætlun næstu þriggja ára, að nú sé lag til að setjast niður og vinna áætlun til lengri tíma.
En hvað sem öðru líður þá er áætlun alltaf áætlun og í raun nokkurs konar handrit af því hvernig við viljum sjá rekstur og framkvæmdir þróast á komandi árum. Það er svo meirihlutans að fylgja því eftir, en að sjálfsögðu mun ég leggja mitt að mörkum til að veita þeim aðhald og stuðning til góðra verka þannig að markmið áætlunarinnar náist. Takist okkur það er framtíðin björt.
Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknarflokks.