11.desember - 18.desember - Tbl 50
Björgunarþyrlan TF-LIF komin á sinn stað í Flugsafni Íslands
Björgunarþyrlan TF-LIF er nú orðin sýningarhæf og var þeim áfanga fagnað hjá Flugsafni Íslands á Akureyri og Öldungaráði Landhelgisgæslunnar.
„Í sumar hafa hollvinir safnsins unnið að því að gera þyrluna sýningarhæfa og nú þegar þeim stóra áfanga var náð var ákveðið að fagna tímamótunum með öllum þeim sem komið hafa að verkefninu,“ segir Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri Flugsafns Íslands. Þyrlan var seld sænsku varahlutafyrirtæki, eX-Change Parts AB, á síðasta ári. Fyrirtækið tók þá hluti úr þyrlunni sem taldir voru nýtilegir og gáfu síðan Flugsafni Íslands þyrluna til varðveislu. Jafnframt gáfu þeir safninu hluti sem hægt var að nota til að gera þyrluna sýningarhæfa
Fyrrum starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þeir Gylfi Geirsson og Benóný Ásgrímsson nýttu tækifærið og fluttu ávörp af þessu tilefni.
Gylfi fór yfir aðkomu Öldungaráðsins að því að TF-LIF var komið á Flugsafnið og þeirra sem studdu verkefnið, þ.e. ET-flutningar sem fluttu þyrluna norður í mars, Eimskip og Samherji sem sáu um að koma varahlutunum frá Svíþjóð safninu að kostnaðarlausu, sem og Landhelgisgæslan, ISAVIA Akureyrarflugvelli og eX-Change Parts AB.
Benóný sem var lengi flugstjóri hjá Landhelgisgæslunni sagði frá því þegar þeir Páll Halldórsson flugstjóri flugu þyrlunni heim til Íslands í júní 1995, og fór yfir nokkur af þeim björgunarafrekum sem unnin voru á þyrlunni, s.s. þegar flutningaskipið Víkartindur strandaði árið 1995 og Baldvin Þorsteinsson EA 10 strandaði árið 2004.
Steinunn safnstjóri fór í sinni ræðu yfir það hversu mikilvægt væri að varðveita grip eins og TF-LIF sem gengt hefði afar mikilvægu hlutverki í íslenskri flugsögu. „Að varðveita grip eins og TF-LIF er draumur safnamannsins, því hún á sér svo merka sögu - bæði í stóra samhenginu en svo eiga margir persónulegar sögur, meðal annars fólk sem bjargað hefur verið með þyrlunni. Hún olli straumhvörfum í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar þegar hún kom til landsins árið 1995 og var ekki lengi að sanna gildi sitt,“ sagði hún. Má í því samhengi nefna að á fimm daga tímabili í mars 1997 bjargaði hún 39 skipbrotsmönnum í þremur skipssköðum. Á þeim 25 árum sem hún var í notkun bjargaði hún eða flutti í sjúkraflugi 1565 manns, „og hún skipar því stóran sess í bæði íslenskri flugsögu og íslenskri björgunarsögu.“