Björn Valur Gíslason þingflokksformaður VG og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, er bjartsýnn á að frumvarp fjármálaráðherra um Vaðlaheiðargöng verði samþykkt fyrir þinglok, sem áætluð eru í lok þessa mánaðar. Við munum alla vega berjast til síðasta manns við að koma málinu í gegn, þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir strax, sagði Björn Valur. Um er að ræða frumvarp til laga um heimild til að undirrita lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf. en kostnaður við gangaframkvæmdina er áætlaður um 8,7 milljarðar króna án virðisaukaskatts. Samkvæmt frumvarpinu skulu Vaðlaheiðargöng hf., eignir þess og tekjustreymi vera fullnægjandi tryggingar fyrir láninu.
Björn Valur segir að frumvarpið sé á borði á fjárlaganefndar og býði afgreiðslu þar en nefndin hefur m.a. fengið fjölda fólks í heimsókn vegna málsins. Ég á ekki von á öðru en að málið detti inn í þingið hvað og hverju og þingið muni svo taka afstöðu til þess. Það er alveg öruggt að málið verður klárað fyrir þinglok og annað hvort ákveður þingið að ráðast í þessa framkvæmd eða ekki. Sjálfsagt munu einhverjir leggjast gegn frumvarpinu. Ég held þó að það hafi allir skilning á því að það þarf að leita óhefðbundinna leiða til að komast í framkvæmdir. Og er ekki alltaf verið að tala um að það þurfi koma einhverjum hjólum til að snúast.
Björn Valur telur að vilji þingsins standi til þess að samþykkja frumvarpið og sjálfur leggur hann mikla áherslu á að sú verði raunin. Ég er búinn að vera með þetta mál meira og minna í fanginu frá árinu 2009. Ég var formaður samgöngunefndar eftir að ég kom inn á þing en þá var verið að ræða mögulegar opinberar framkvæmdir, sem hægt væri að ráðast í með tóman ríkissjóð eftir hrun. Þetta var ein slík framkvæmd og var unnið með málið áfram, sem endaði með lagasetningu 2010, þar sem Vaðlaheiðargöng og fleiri framkvæmdir voru inni. Áfram var haldið með lögin í hendinni og m.a. reynt að semja við lífeyrissjóðina en án árangurs.
Björn Valur segir að undirbúningur vegna framkvæmda við Vaðlaheiðargöng hafi staðið yfir lengi og að málið hafi verið vel undirbúið. Það er í raun ekkert ósagt um málið og kominn tími á að taka ákvörðun.
ÍAV og svissneska fyrirtækið Marti Contractors Lts, áttu lægsta tilboð í gerð Vaðlaheiðarganga í alþjóðlegu útboði en tilboðin voru opnuð í október sl. Tilboð þeirra hljóðaði uppá rúmar 8,8 milljarða króna, eða 95% af kostnaðaráætlun. Vegna tafa við afgreiðslu málsins rann tilboðið út en lægstbjóðendur samþykktu að framlengja tilboðið um fjóra mánuði, eða fram í miðjan júní nk.