Bílhræ skilin eftir í íbúðarhverfum

Allskyns drasl er á víðavangi á Akureyri.
Allskyns drasl er á víðavangi á Akureyri.

Bæjarráð Akureyrar hefur ákveðið að leggja tvær milljónir króna í sérstakt umhverfisátak til hreinsunar á bílhræjum og öðru drasli innan og utan lóða í bæjarfélaginu. Jón Birgir Gunnlaugsson, forstöðumaður umhverfismála hjá Akureyrarbæ, segir í samtali við Vikudag að bílhræ og annað drasl hafi stóraukist undanfarin ár.

„Þetta var í ágætu horfi fram til ársins 2008. En eftir að kreppan skall á þá hríðversnaði ástandið, fólk fór að halda að sér höndum og skilja allskyns drasl eftir á víðvangi. Það eru mörg dæmi um fólk hafi skilið bílhræ eftir í miðjun íbúðarhverfum,“ segir Jón Birgir. Einnig er töluvert af drasli skilið eftir í iðnaðar- og hesthúsahverfum.

Að sögn Jóns Birgis ber Akureyrarbær kostnað af förgun bílhræja og öðru drasli sem skilið er eftir á víðavangi ef eigandinn finnst ekki eða getur einhverja hluta vegna ekki greitt fyrir förgunina. „Með þessu átaki núna viljun við reyna að koma þessu aftur í rétt horf,“ segir Jón Birgir.

-þev

Nýjast