Bílasýningin í Genf

Bílasýningin í Genf stóð var að venju haldin um miðjan marsmánuð og þar var margt að sjá. (Myndir hér)   

 Við feðgar eyddum þar tveimur dögum auk þess sem við fengum okkur göngutúr um borgina, sem skartaði sínu fegursta í björtu og hlýju veðri. Genf er nefnilega sérlega þægileg heim að sækja eins og Sviss er reyndar yfir höfuð, enda túrisminn fundinn upp þar. Genf stendur við vesturendann á Genfarvatninu, borgin er hæfilega stór, tæplega 200 þús. íbúar, og samgöngur við borgina og innan hennar eru einstaklega þægilegar. Genf er eins alþjóðleg og nokkur borg getur verið enda er þar að finna fjölmargar alþjóðlegar stofnanir. Ekki er óalgengt meðal borgarbúa að þeir ráði við fjögur tungumál, frönsku, þýsku, ítölsku og ensku. Síðast en ekki síst er bogin afar falleg, bæði umhverfið og borgin sjálf. Genf er hins vegar ekki ódýrasti áfangastaður í heimi.

Bílaframleiðendur verða sífellt áhugasamari um þessa sýningu þar sem hún er árlegur viðburður. Hin risastóra bílasýning í Frankfurt er hins vegar haldin annað hvert ár og því hentar Genfarsýningin framleiðendum jafnvel enn betur til að kynna árlegar nýjungar.

Nýir orkugjafar

Að þessu sinni var nokkuð áberandi vaxandi áhugi á nýjum orkugjöfum. Þó eru bílar sem nota annað eldsneyti en jarðolíu fremur fágætir og það eru umtalsverðar líkur á að svo verði á næstu árum. Umræða um mengun, takmarkaðar uppsprettur jarðolíu og gróðurhúsaáhrif hafa hins vegar orðið til þess að framleiðendur leggja nú verulega áherslu á aðferðir til að draga úr eldsneytisnotkun bensín og díselvéla og sá þess víða stað á þessari sýningu. Jafnframt fjölgar þeim bílum sem knúnir eru díselvélum.

Umræða um framtíð samgangna og orkunotkunar verður að bíða betri tíma en hér meðfylgjandi eru myndir af nokkrum bílum sem sjá mátti á sýningunni í Genf og þeir voru ekki allir sérhannaðir til sparaksturs.

Maserati Quattroporte

Ég hef alllengi átt erfitt með að hemja aðdáun mína á Maserati Quattroporte. Þessi  4 dyra útgáfa af sportbíl hefur lengi verið til með þessu nafni en síðust árin hefur þessi bíll orðið fallegri og betri með hverri smábreytingu. Bíllinn er teiknaður af Pininfarina, klassiskur og án tilhneigingar í átt að skammæjum tískufyrirbrigðum. Þessi bíll gleður bara augað og mun gera það um ókomin ár. Í Genf voru 3 útgáfur af Quattroprte, missportlegar, en sú nýjasta er með 6 þrepa sjálfskiptingu frá ZF og með henni verður þessi bíll að hreinræktaðri lúxuskerru. Maserati er, eins og Ferrari, í eigu Fiat og það er heilmikið af Ferrri um borð í Maserati, þar á meðal vélin. Þessi nýja sjálfskipta útgáfa er með 4,2 lítra V8, 400 hö og snúningsvægið er mest 460 Nm. Quattroporte er 6,1sek að ná 100 km hraða úr kyrrrstöðu og hámarkshraðinn er 270 km á klst.

Og talandi um fallega bíla þá var einnig nýr sportbíll, Maserati Coupé, til sýnis, svona eins og til að sýna og sanna hvar fallegustu bílarnir eru smíðaðir.

Audi

Skammt frá Maserati var Audi í öllu sínu veldi og þar gat að líta einn nýjan, Audi A5, tveggja dyra coupé. Þessi bíll er byggður á nýjum A4 undirvagni, en nýr A4 verður væntanlega kynntur til sögunnar seint á þessu ári. Audi A5 er bráðlaglegur bíll, 4 sæta með viðunandi rými fyrir 4 fullorðna, ef frá er talin lofthæð í aftursæti. A5 verður fáanlegur með 5 vélargerðum, 1,8 TFSI 170 hö, 3,2 FSI 265 hö, 2,7 TDI 190 hö, 3,0 TDI 240 hö og í sérútgáfu S5 er 4,2 V8 FSI 354 hö. Fjórhjóladrif er staðalbúnaður í tveimur síðasttöldu gerðunum en það fæst einnig með 2,7 TDI og 3,2 FSI vélunum.

Mondeo

Annar þýskur framleiðandi, Ford, kynnti nýja gerð af Mondeo, mjög álitlegan bíl, nokkru stærri og viðameiri en þá eldri. Nokkrar vélar verða í boði 1,6 - 2,5 l, 110-220 hö auk 2,0l díselvélar.

Volvo

Dótturfyrirtæki Ford, Volvo,  sýndi nýja úgáfu af XC70 skutbílnum. Þessi nýja gerð kemur í kjölfarið á hinum nýja V70 og er, eins og hann, lítillega stærri og rýmri en forverinn. Drifbúnaðurinn frá Haldex hefur verið endurbættur og innréttingin er á margan hátt betri og enn notdrýgri en áður. Tvær vélarstærðir verða í boði , 3,2 lítra 6 strokka bensínvél, 238 hö og 2,4 lítra 5 strokka díselvél, 185 hö.

Hjá Volvo var einnig til sýnis tilraunaútgáfa af "jepplingi" Volvo XC60, sem virðist mjög athyglisverður bíll.

Jepplingar

Talandi um "jepplinga" þá var mikið um bíla í þeim flokki. Þar á meðal var bíll sem sýndur var undir merkjum þriggja framleiðenda.  Þar var um að ræða Mitsubishi Outlander sem einnig verður settur á markað sem Peugeot 4007 og Citroën C-Crosser.

Bíllinn er þá í öllum aðalatriðum eins og Outlander, þ.e. hvað varðar undirvagn, drifbúnað og yfirbyggingu. Citroën og Peugeot setja síðan sinn eigin framenda á bílinn og fitla eitthvað við innréttinguna. Meginmunurinn verður þó sá að PSA fyrirtækið (sem framleiðir Peugeot og Citroën) setur 2.2.lítra 156 ha díselvél í sínar útgáfur í stað 2,0 lítra díselvélarinnar í Outlander (sú vél er reyndar af Volkswagenætt). Bíllinn fæst með 7 sætum og hann hefur rafeindastýrðan drifbúnað líkan þeim sem þekktur er úr Pajero, en þó án lággírunar. Búnaðurinn hefur þrjár stillingar, framdrif, sjálfvirkt fjórhjóladrif eða læst fjórhjóladrif.

Lada

Lada var með bíla á sýningunni í Genf bæði 1117 og 1119GTI, sem eru smábílar af svipaðri stærð og Ford Fiesta. Ennfremur var þarna frumgerð af Lada C, sem ég veit því miður ekkert meira um. Lada er í samstarfi við marga bílaframleiðendur í Rússlandi og einnig við General Motors svo búast má við nýjungum þaðan á næstunni.

Volkswagen

Volkswagen kynnti ýmsar nýjungar, þ.á.m. nýjan Golf skutbíl og sérstaklega sparneytinn díselknúinn Passat sem Volkskswagen nefnir Bluemotion og á ekki að eyða nema 6-7 lítrum á hundraði í blönduðum akstri.

Dótturfyrirtæki Volkswagen, Skoda, kynnti nýjan Fabia ásamt upphækkuðum útgáfum sem nefnast Scout af Octcvia og Roomster bílunum.

Volkswagen átti einnig mesta tryllitækið á sýningunni, Bugatti EB 16.4 Veyron. Sá bíll er í talsverðum sérflokki. Vélin er W16, 8.0 lítra, 1001 hö, 1250 Nm, hámarkshraðinn er 407 km/klst og hröðun 0-200 7,3 sek.

Til gamans fylgja hér að auki myndir af nokkrum vel völdum ökutækjum: Rolls Royce Phantom, Bentley Brooklands, Russo-Baltique og Mercedes-Benz SLR Edition 722.

Nýjast