Besta skíðahelgin í vetur

Mikill fjöldi fólks var á skíðum í Hlíðarfjalli um helgina, sem var sú stærsta á þessum vetri, að sögn Guðmundar Karls Jónssonar forstöðumanns Skíðastaða. Um 1.100 manns voru í fjallinu á laugardag og 1.300-1.400 manns á sunnudag. Guðmundur Karl sagði að sunnudagurinn væri sá besti í vetur, bæði hvað varðar aðsókn og veður. Á laugardag var snjókoma og lélegt skyggni í fjallinu en engu að síður var mikill fjöldi fólks á skíðum, eða um 1.100 manns. Guðmundur Karl sagði að þar hefði aðkomufólk verið í miklum meirihluta gesta en daginn eftir, á sunnudeginum, hefðu heimamenn bæst í hópinn, enda veðrið þá með allra besta móti. „Þetta er búið er vera mjög gott og lofar góðu fyrir framhaldið. Það er aðeins mánuður í páska og við fengum mjög góða æfingu fyrir þá törn um helgina," sagði Guðmundur Karl.

Hann á von á miklum fjölda fólks á skíði um páskana en sagði að fjöldinn réðist þó m.a. af því gistiplássi sem væri í boði í bænum. Á besta deginum um páskana í fyrra fóru um 1.800 manns í gegnum teljarann í Fjarkalyftunni.

Nýjast