Besta leiðin til að styrkja samfélög er með góðum samgöngum

Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar segir að besta leiðin til að styrkja samfélögin á svæðinu sé með góðum samgöngum. Svanfríður segir að Dalvíkingar séu mjög meðvitaðir um að Héðinsfjarðargöng væru komin í notkun. Þetta kom fram í máli hennar á fundi fundi um samgöngubætur og samfélagsleg áhrif þeirra, sem haldinn var í Hofi.  

"Þess vegna eru Vaðlaheiðargöng svo mikilvæg líka, vegna þess að við viljum stækka þetta samfélag okkar hér. Það er mikilvægt að fá Siglfirðingana inn í samfélagið og það er líka mikilvægt að það séu greiðar leiðir hér austur um, bæði fyrir okkur til að fara þangað og ekki síður fyrir þá til að koma hingað." Svanfríður sagði að þótt mörgum þorpsbúunum í kringum Akureyri finnist Akureyri oft stór, sé það nú samt þannig að bærinn sé það lítill að hann megi ekkert missa. "Við þurfum að passa upp á það að sú þjónusta sem hér er fái að vaxa og dafna."

Svanfríður beindi orðum sínum að Runólfi Ólafssyni framkvæmdastjóra FÍB og hrósaði honum fyrir að mæta á fundinn. Hún sagðist hins vegar ekki trúa því að Runólfur væri fylgjandi Vaðlaheiðargöngum, málflutningur hans og FÍB hafi sýnt annað. Varðandi greiðsluvilja almennings, sem nefndur hefur verið varðandi Vaðlaheiðargöng, þá sagði Svanfríður að greiðsluvilji almennings úti á landi væri meiri en almennings á höfuðborgarsvæðinu. "Ef svo væri ekki, þá myndum við ekki búa hérna."

Stærri svæði eftirsóknarverðari

Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor við HA flutti erindi á fundinum og hann sagði að greiðar samgöngur innan svæða væri það sem skipti okkur mestu máli í daglegu lífi. "Það er að sækja atvinnu, skóla, þjónustu og fleira. Þá er það jákvætt ef atvinnu- og þjónustusvæði stækka, því þá fáum við fjölbreyttari vinnumarkað og það eru meiri líkur á að fólk fái starf við hæfi. Stærri markaður gerir ýmsa þjónustu mögulega, sem ekki er möguleg á minni markaði. Við sem búum á landsbyggðinni erum meðvituð um þetta," sagði Jón Þorvaldur. Hann sagði að greiðar samgöngur og þá stækkun svæða, snérust um það að gera þau eftirsóknarverðari til búsetu og eftirsóknarverðari fyrir atvinnustarfsemi. Akureyrarsvæðið hafi stækkað með tilkomu Héðinsfjarðarganga og það sama muni gerast með tilkomu Vaðlaheiðarganga. Jón Þorvaldur fór yfir stöðu mála varðandi Vaðlaheiðargöng og hann sagði að hægt yrði að gera göngin með lánsfé, sem greitt yrði með veggjaldinu einu, trúlega á um 30 árum og að ekki þyrfti að koma fjármagn úr ríkissjóði. Jón Þorvaldaur taldi að ársverk á framkvæmadatíma yrðu líklega um 300 og ef Íslendingar sjá um gerð ganganna myndi það skila um tveimur milljörðum króna í ríkissjóð. Hluti framkvæmdakostnaðar færi inn í ríkissjóð aftur og þá fjármuni mætti nota aðrar framkvæmdir.

Enn hart sótt að göngunum

"Það eru yfirgnæfandi líkur á því að þetta dæmi gangi upp en það eru alltaf einhverjar líkur á því að allt fari á versta veg. En nú er tækifærið til að ráðast í þessa framkvæmd, vegna þess að það vantar framkvæmdir, það er atvinnuleysi og vaxtarkjör ríkisins eru góð, sem er lykilatriði."  Jón Þorvaldur sagði að þrátt fyrir að Vaðlaheiðargöng væru ávinningur allra, þ.e. ríkisins, sveitarfélaga, atvinnulífsins og vegfarenda, væri enn hart sótt að göngunum af vissum öflum. Sveitarstjórnarmenn séu sakaðir um blekkingar og að lítill skilningur sé meðal ýmissa þingmanna. "Það er mjög erfitt fyrir þingmenn og marga aðra að meðtaka það að framkvæmdin hafi ekki áhrif á aðrar framkvæmdir, að hún taki ekki fé frá öðrum framkvæmdum og sé gerð fyrir sjálfsaflafé. En spurningin sem alltaf kemur upp, líka hjá fólki hér á Akureyri, er hvort ekki séu aðrar framkvæmdir mikilvægari? Sá sem þannig spyr skilur ekki hvað þarna liggur að baki," sagði Jón Þorvaldur.

Eins fram hefur komið hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda haft ýmislegt við fyrirhugaðar framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng að athuga. Félagið hefur haft miklar efasemdir um þá útreikninga sem lagðir hafa verið fram og telur að framkvæmdin muni ekki standa undir sér með veggjöldum eingöngu, því muni umtalsverður kostnaður falla á skattgreiðendur. Þessu hafa fulltrúar í stjórn Vaðlaheiðarganga og Eyþings m.a. mótmælt og var skotið föstum skotum að Runólfi á fundinum, m.a. af Kristjáni L. Möller alþingismanni. Runólfur svaraði þeim spurningum sem að honum var beint og nefndi að forsendur FÍB væru m.a. byggðar á skýrslu sem unnin var fyrir Greið leið. Runólfur benti m.a. á að umfjöllun FÍB hefði verið rangtúlkuð á margan hátt og benti mönnum á að lesa umfjöllun félagsins, sem er að finna á vef FÍB. Hann sagði félagið ekki á móti göngunum og ef hægt væri að fjármagna framkvæmdina með veggjöldum og útreikningar FÍB ekki réttir, væri það hið besta mál.

Líka sjónarmið á okkar svæði

Einnig var á fundinum rætt um svokallaða Svínavatnsleið, (Húnvallaleið), sem myndi stytta vegalengdina milli Akureyrar og Reykjavíkur um 14 km. Við þá breytingu færi Blönduós úr alfaraleið. Ágúst Þór Bragason forseti bæjarstjórnar Blönduóss mætti á fundinn í Hofi og hann sagðist virða þau sjónarmið sem fram komu á fundinum.

"En það eru líka sjónarmið á okkar svæði sem ég bið menn að hlusta eftir og virða. Okkur munar um það að fá ferðafólk, við höfum fjárfest síðustu árum fyrir á annan milljarð í tækifærum tengdum ferðaþjónustu. Við viljum að sjálfsögðu fá nýtingu á þetta og viljum jafnframt fá tækifæri til þess að efla byggðina, fá lágvöruverslun og fleira en það fáum við ekki þegar það liggur í loftinu að taka eigi umferðina frá okkur." Ágúst Þór sagði að tengsl íbúa í Húnavatnssýslum og Skagafirði við Akureyri hefðu mikla þýðingu fyrir alla. "Ég horfi til þess að Akureyri verði leiðandi byggðarlag á landsbyggðinni og leggi áfram upp úr því að þjónusta byggðirnar á Norðurlandi. En Akureyri þarf líka að lifa í sátt við samfélagið í kringum sig og við sem búum hér fyrir vestan skiptum líka máli," sagði Ágúst Þór.

Vegalengdir munu styttast

Sigmundur Ernir Rúnarsson alþingismaður sagði að sífellt væri verið að saka þingmenn um kjördæmapot, þegar kemur að málum eins og samgöngumálum. "Við pólitíkinni þurfum að berjast fyrir byggðajafnrétti með bættum samgöngum og það gerum við aðeins með tvennum hætti, að bæta flutningsjöfnuð í gegnum skattkerfið og stytta vegalengdir. Það eina sem mun gerast í samgöngumálum Íslendinga á næstu árum, er blessunarlega, að vegalengdir munu styttast, það er krafa nútímans."

Nýjast