Umfjöllun um Icesave - kröfur Breta og Hollendinga á hendur Íslenska ríkinu - hefur verið villandi. Oft er fjallað um kröfurnar sem lán eða skuldbindingar Íslendinga. Þær staðhæfingar eru rangar og verða kröfurnar ekki að skuldbindingum nema með staðfestingu laganna. Ríkisábyrgð er ekki til á þessum kröfum nema að þjóðin samþykki lögin í komandi atkvæðagreiðslu. Það er ljóst að engin lagaleg skylda hvílir á Íslenska ríkinu til þess að ábyrgjast þessar kröfur. Engin siðferðileg skylda eða hvað þá að rök þeirra sem samþykkja vilja lögin standist einhverja skoðun.
Af hverju eru mistök að samþykkja lögin?
Ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að greiðslur úr þrotabúi gamla Landsbankans standi að mestu eða fyllilega undir þessum erlendu kröfum. Þessi viðhorf geta verið hættuleg vegna þess að matið á þrotabúinu er lagt fram af skilanefnd Landsbankans með fyrirvörum. Stór hluti þrotabúsins er bundinn í eignum sem auðveldlega geta rýrnað í verði. Óvissa ríkir um hvenær endurheimtur geti hafist og hvernig þróun gengis verður háttað.
Verði Icesave samningurinn samþykktur er ríkisábyrgðin ótakmörkuð upp að 647 milljörðum auk vaxta í erlendum gjaldeyri. Með samþykkt samninganna munu 26,1 milljarður hverfa úr hagkerfinu okkar samstundis í vaxtagreiðslur. Þessir milljarðar eru brot af því fjármagni sem kveðja íslenskt hagkerfi endanlega vegna kröfu Breta og Hollendinga. Í fjárlögum þessa árs er ekki gert ráð fyrir brotthvarfi fjármagns vegna Icesave - samninganna. Þessum kröfum verður mætt með frekari niðurskurði í ríkisútgjöldum og skattahækkunum verði þær samþykktar.
Greiðsluþrot ríkisins?
Það versta við þetta mál er sú staðreynd að kröfurnar gætu leitt til greiðsluþrots þjóðarbúsins vegna þess að skuldastaða Íslands er nú þegar nær óviðráðanleg. Ríkissjóður getur ekki skuldbundið sig frekar og réttast væri að verðmætasköpun innanlands færi í gang til þess að stuðla að hagvexti án frekari tafa.
Dómstólaleiðin kemur líklega í veg fyrir greiðsluþrot vegna samninganna. Hún tryggir það að ef svo ólíklega vildi til að Íslendingar yrðu bótaskyldir, yrðu þær bætur eingöngu greiddar út í íslenskum krónum í stað erlendrar myntar og ákvarðaðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Fjármagnið fer ekki í fýlu
Því er haldið á lofti að höfnun Icesave - laganna komi í veg fyrir erlenda fjárfestingu. Það er rangt vegna þess að fjármagn fer aldrei í „fýlu" heldur leitar uppi tækifærin. Þá verður að vera til staðar umhverfi til þess að skapa þau. Eina erlenda lánastofnunin sem mögulega hefur ekki viljað lána til Íslands vegna Icesave-málsins er Evrópski fjárfestingabankinn sem er í eigu Evrópusambandsins og aðildarríkja þess, þar á meðal Hollendinga og Breta. Þetta hefur komið fram í fjölmiðlum, en ekki verið staðfest.
Samningurinn er vondur
Samningar geta aðeins verið góðir komi að borðinu jafningjar sem deila ábyrgð og áhættu af samningsefni. Áhættuþættir samningsins halla nær allir á íslenska ríkið. Þá er það óréttlátt og niðrandi að varnarþing Íslands færist með samþykkt laganna út fyrir landssteinana. Fyrirliggjandi Icesave-samningar eru slæmir samningar. Berum gæfu til þess að hafna þeim þann 9. apríl.nk.
F.h. Samstöðu þjóðar gegn Icesave.
Höfundur er stjórnmálafræðinemi við Háskóla Íslands.