Um er að ræða beint flug snemma morguns frá Akureyri til Keflavíkur og flug síðdegis frá Keflavíkurflugvelli norður. Verð á einstakri ferð milli þessara staða verður frá 4.000 krónum. Flogið verður á mánudögum, fimmtudögum og föstudögum. Farþegar munu innrita sig og farangur sinn á Akureyri og fara þar í gegnum tollskoðun og koma inn í Leifsstöð með sama hætti og millilandafarþegar. Sama fyrirkomulag verður síðdegis þegar farþegar koma erlendis frá. Þá fara þeir beint um borð í flugvélina norður og fá farangur sinn og fara í gegnum tollskoðun á Akureyri.
Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair, kynnti þessa nýbreytni á blaðamannafundi á Akureyrarflugvelli. Við það tækifæri færði hann Sigrúnu Björk Jakobsdóttur bæjarstjórafarmiða fyrir tvö á flugleiðinni Akureyri-New York að gjöf. Sigrún Björk þakkaði fyrir sig en sagðist ætla að gefa miðana í gott málefni, sem yrði kynnt siðar. Hún sagðist fagna þessari nýbreytni sem ætti eftir að auka mjög þægindi í utanferðum. Sigrún Björk sagðist jafnframt vona að með þessu væri einnig hægt flytja erlenda ferðamenn beint til Akureyrar.
Gunnar Már sagði að á hverjum morgni fari 10-12 flug frá Icelandair til útlanda og með því að taka þessa flugrútu að norðan opnist viðskiptavinum félagsins á landsbyggðinni nýir ferðamöguleikar. Í raun sé um útvíkkun á leiðakerfi félagsins að ræða. Icelandair Group fagnar á þessu ári 70 ára afmæli félagsins og sagði Gunnar Már að það væri sérstaklega ánægjulegt að geta kynnt þessa viðbót nú, þar sem félagið eigi rætur að rekja til stofnunar Flugfélags Akureyrar árið 1937.