Íslenska ferðaskrifstofan Trans-Atlantic hyggst í samstarfi við eistneska flugfélagið Estonian Air hefja áætlunarflug milli Kaupmannahafnar og Akureyrar sumarið 2016. Þessi nýja flugleið verður hluti af leiðakerfi Estonian Air og til sölu á heimasíðu þeirra, heimasíðu Trans Atlantic og á öllum helstu bókunarvélum. Flogið verður á 84 sæta vélum af gerðinni Bombardier CRJ900.
Flugið hefst í maí 2016 og flogið verður einu sinni í viku á laugardögum til 24. september. Ef nýting flugsins verður góð eru möguleikar á aukinni tíðni og lengra tímabili í framtíðinni.
Stefnt er að því að hægt verði að bóka í þessi flug frá og með 1. nóvember nk. Upplýsingar um það verður að finna innan tíðar á heimasíðum Trans Atlantic og Estonian Air. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.