Beðið eftir kuldatíð
Nú er aðeins farið að kólna eftir einmuna veðurblíðu í Eyjafirði í haust. Viðvarandi fjögurra gráðu frost eða meira þarf að vera í Hlíðarfjalli til þess að snjóframleiðsla geti hafist en stefnt er að því að opna skíðasvæðið fyrir áramót ef hægt er og veður leyfi, segir í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ. Þar segir að nú séu sex starfsmenn að undirbúa vetrarstarfið í Hlíðarfjalli en fleiri verða ráðnir tímabundið eins og vant er þegar aðsókn er hvað mest eftir áramótin.
Eins og Vikudagur hefur áður greint frá sögðu báðir verkstjórar Hlíðarfjalls upp störfum nýverið vegna óánægju með launakjör og óvissa hefur ríkt um opnun Hlíðarfjalls sökum þess. Búið er að auglýsa störfin.
Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir að nú sé beðið eftir frostinu og snjónum, engin leið sé að segja nákvæmlega til um hvenær skíðasvæðið verði opnað, það ráðist fyrst og fremst af tíðarfari.