Batnandi rekstrarniðurstaða A - hluta Akureyrarbæjar

Samþykktar voru  tillögur aðgerðahóps um framtíðarrekstur Akureyrarbæjar á fundi bæjarráðs í gær, fimmtudaginn 19. maí. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Áætluð rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarfélagsins fyrir yfirstandandi ár verður 330 milljónum krónum betri en gert var ráð fyrir í upphaflegri fjárhagsáætlun bæjarfélagsins fyrir árið 2016 samkvæmt tillögum hópsins.

Aðgerðarhópurinn hóf störf í byrjun janúar og í honum sátu oddvitar allra flokka sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn, auk bæjarstjóra og fjármálastjóra bæjarins. Markmið hópsins var finna leiðir til að draga úr rekstrarhalla strax á þessu ári og koma með tillögur um aðgerðir sem mæta áætlaðri hagræðingu næstu ára, auka jafnvægi í rekstri sveitarfélagsins og stefna að sjálfbærum rekstri A-hluta Akureyrarbæjar.

Tillögurnar voru lagðar fram eftir að rýnt hafði verið í rekstur allra málaflokka sveitarfélagsins í því augamiði að draga sem minnst úr grunnþjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Lítið verður dregið úr framlögum bæjarins til fræðslumála, eða um tæplega hálft prósent á árinu 2016 og áætluð hagræðing í félagsþjónustu nemur 1,6% á árinu 2016 frá upphaflegri áætlun.

„Góð samvinna allra framboða einkenndi vinnu aðgerðahópsins og var lykillinn að þeirri sátt sem náðist um aðgerðirnar. Samhliða þeim aðgerðum sem gripið er til á yfirstandandi ári er lögð fram aðgerðaáætlun sem miðar að því að bæta framtíðarrekstur sveitarfélagsins. Vinna aðgerðahópsins hefur líka að mínu mati aukið yfirsýn okkar bæjarfulltrúa og er grunnur fyrir markvissari áætlanir og vonandi betri rekstur til lengri tíma litið,“segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar.

Tillögurnar voru unnar í samstarfi við embættismenn, aðra stjórnendur og nefndir sveitarfélagsins. Tillögum hópsins fyrir yfirstandandi ár verður hrint í framkvæmd á næstu dögum, eftir fundi með öllum fastanefndum og stjórnendum Akureyrarbæjar. /epe.

Nýjast