Aðrir útileikir skipa eins og áður veglegan sess á barnaskemmtuninni. Á flötinni neðan við safnið geta börn og fullorðnir hlaupið í skarðið, farið í reipitog, pokahlaup og skeifukast svo eitthvað sé nefnt. Börn og fullorðnir geta reynt með sér með stóru útitafli Hlíðarskóla, húllað, tvistað, sippað og blásið sápukúlur á milli þess að nýta fjörugt ímyndunarafl og skapað staðar-, far- eða furðufugla úr pappír. Fuglarnir verða hengdir upp á safninu til sýnis þennan fyrsta sumardag. Gjörningur Önnu Richards - Furðufugl - setur svo punktinn yfir i-ið.
„Skáldin í Eyjafirði" sýning á verkefni nemenda í Hlíðarskóla gefur gestum tækifæri til að kynnast skáldunum okkar og starfi skólans.Hana og aðrar sýningar safnsins, sem eru í tilefni dagsins með ýmsum fróðleik um sumarið, er hægt að njóta um leið og kakóilmur og lummuangan fyllir öll vit. Það eru STOÐvinir safnsins sem reiða fram veitingarnar og gera þennan dag að því sem hann er í samstarfi við starfsfólk Minjasafnins.
Það er sem sagt nóg um að vera og því upplagt fyrir mömmur og pabba, ömmur og afa, langömmur og langafa, frænkur og frændur að gera sér glaðan dag með börnunum á Minjasafninu á Akureyri. Enginn aðgangseyrir er á barnaskemmtun Minjasafnins.