„Ég stefni að því að leiða listann áfram, en auðvitað getur allt gerst í pólitík, við þekkjum það," segir Baldvin. Hann segir að taka þurfi margt í gegn þegar kemur að bæjarmálum og vanda þurfi betur til verka en verið hefur. Einkum þykir honum nauðsynlegt að ana ekki út í skuldafen, það kunni ekki góðri lukku að stýra. „Margir eru veisluglaðir og vilja framkvæma mikið, en það verður að vera til fé, það er ekki hægt að gera alla hluti sem mann langar til og slá bara endalaust lán. Það sér hver maður. Mér hugnast ekki að við skiljum eftir okkur skuldahalda sem við drögum á eftir okkur áratugi fram í tímann." Þá segir Baldvin nauðsynlegt að styrkja atvinnulífið í bænum og það verði best gert með því að efla ferðaþjónustu. Á þeim vettvangi höfum við grunn að byggja á.
Kristín Sigfúsdóttir sem skipaði annað sæti á lista VG fyrir bæjarstjórnarkosningar 2006 segir að hún muni ekki sækjast eftir því sæti áfram. „Ég ætla að stíga til hliðar. Ég hef ekki úthald í að sinna fullu starfi og sinna bæjarmálunum jafnframt, það er orðið of mikið," segir hún. Kristín ætlar þó áfram að gefa kost á sér, en hyggst færa sig neðar á listann. „Ég get ekki alveg hætt í pólitík," segir hún og kveðst ekki stefna á að skipa annað sæti listans áfram. „Við fáum örugglega til liðs við okkur ungt og kraftmikið fólk."