,,Ég er þannig stemdur í þessu máli að ég stend við aðalfundarsamþykkt félagsins á sínum tíma þess efnis að það yrði skoðað að flytja frjálsíþróttaaðstöðuna á svæði félagsins og félagið væri tilbúið í viðræður þess efnis," segir Árni Óðinsson varaformaður Íþróttafélagsins Þórs.
Árni er hins vegar ekki hrifinn af aðgerðarleysi bæjarins í málinu en Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs tjáði Vikudegi að 45 mánuðir eru liðnir frá því Þór sendi Akureyrarbæ erindi um málið en því erindi hefur enn ekki verið svarað. ,,Bærinn hefur ekki sýnt þessu neinn áhuga og það er nú ekki til að auðvelda málin," segir Árni.
Hann segist halda að sífellt fleiri og fleiri Þórsarar séu að komast á þá skoðun að frjálsíþróttavöllurinn eigi ekki að fara inn á svæði Þórs. ,,Ég held að ástæðan fyrir þessu sé sú að menn sjá áhugaleysi bæjarins í málinu og félagið eigi ekki að vera í samstarfi við aðila sem hafi engan áhuga á því.
,,Mín persónulega skoðun er hins vegar sú að við skoðum hvaða möguleikar eru í boði því ég tel þetta bestu leiðina til að byggja félagssvæði okkar upp. Spurningunni um hvort ég sé með eða á móti því að fá frjálsíþróttavöllinn inná svæðið get ég hinsvegar ekki svarað fyrr en öll spil hafa verið lögð á borðið," sagði Árni.
Ítarlega er fjallað um þetta mál í Vikudegi sem kemur út síðdegis á morgun, fimmtudag.