Bærinn bjargar rekstri Iðnaðarsafnins

Iðnaðarsafnið á Akureyri.
Iðnaðarsafnið á Akureyri.

Bæjarráð Akureyrar hefur ákveðið að veita Iðnaðarsafninu á Akureyri sérstakan fjárstuðning að upphæð 2.000.000 kr. og felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun ársins vegna þessa. Í erindi frá Þorsteini E. Arnórssyni fyrir hönd Iðnaðarsafnsins til bæjaryfirvalda er óskað eftir auknum stuðningi Akureyrarbæjar við rekstur safnins og tryggja þannig starf allt árið fyr­ir einn starfs­mann.

„Með slíku fram­taki væri unnt að halda rekstri safns­ins gang­andi og þannig stuðlað að áfram­hald­andi varðveislu á iðnaðar­sögu Ak­ur­eyr­ar,“ seg­ir m.a. í bréf­inu. Þar kem­ur einnig fram að 1.746 gest­ir hafi heim­sótt safnið á síðasta ári. Sex­tán skóla­hóp­ar heim­sóttu safnið og aðrar heim­sókn­ir hópa voru 10.

Mikilvægt hlutverk í safnaflóru bæjarins

Akureyrarbær hefur stutt við rekstur safnsins á undanförnum árum með því að útvega því húsnæði án endurgjalds. Sá stuðningur er nú metinn á um 5 milljónir króna árlega. Safnið sjálft hefur aflað tekna til að standa undir daglegum rekstri og almennu safnastarfi en sjálfboðavinna hefur skipað stóran þátt í að láta það ganga upp.

Í bókun stjórnar Akureyrarstofu segir að Iðnaðarsafnið gegni afar mikilvægu hlutverki í safnaflóru bæjarins og hafi lyft grettistaki í varðveislu sögu sem annars væri að stórum hluta glötuð.

 

Nýjast