Bæjarráð Akureyrar hefur ákveðið að veita Iðnaðarsafninu á Akureyri sérstakan fjárstuðning að upphæð 2.000.000 kr. og felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun ársins vegna þessa. Í erindi frá Þorsteini E. Arnórssyni fyrir hönd Iðnaðarsafnsins til bæjaryfirvalda er óskað eftir auknum stuðningi Akureyrarbæjar við rekstur safnins og tryggja þannig starf allt árið fyrir einn starfsmann.
„Með slíku framtaki væri unnt að halda rekstri safnsins gangandi og þannig stuðlað að áframhaldandi varðveislu á iðnaðarsögu Akureyrar,“ segir m.a. í bréfinu. Þar kemur einnig fram að 1.746 gestir hafi heimsótt safnið á síðasta ári. Sextán skólahópar heimsóttu safnið og aðrar heimsóknir hópa voru 10.
Mikilvægt hlutverk í safnaflóru bæjarins
Akureyrarbær hefur stutt við rekstur safnsins á undanförnum árum með því að útvega því húsnæði án endurgjalds. Sá stuðningur er nú metinn á um 5 milljónir króna árlega. Safnið sjálft hefur aflað tekna til að standa undir daglegum rekstri og almennu safnastarfi en sjálfboðavinna hefur skipað stóran þátt í að láta það ganga upp.
Í bókun stjórnar Akureyrarstofu segir að Iðnaðarsafnið gegni afar mikilvægu hlutverki í safnaflóru bæjarins og hafi lyft grettistaki í varðveislu sögu sem annars væri að stórum hluta glötuð.