"Núverandi bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar mun hafa með höndum stjórn hins sameinaða sveitarfélags til sveitarstjórnarkosninga
árið 2010 og fer því með alla sveitarstjórn í Grímsey. Fagnefndir Akureyrarkaupstaðar fara hver á sínu sviði með
málefni sem varða Grímsey og undir þær heyra. Hreppsnefnd Grímseyjarhrepps verður samráðsnefnd fram að sveitarstjórnarkosningum 2010.
Samráðsnefnd hefur það hlutverk að vera tengiliður fagnefnda og íbúa Grímseyjar og hefur rétt til að skipa einn
áheyrnarfulltrúa úr nefndinni til setu á fundum fagnefnda, með málfrelsi og tillögurétt, þegar málefni eyjarinnar eru til
umfjöllunar."
Greiðslur til samráðsnefndar verði í samræmi við reglur Akureyrarbæjar um nefndarlaun. Bæjarráð samþykkti að formaður
samráðsnefndar taki að sér hlutverk tengiliðar í Grímsey vegna þjónustu, viðhalds og framkvæmda. Bæjarstjóra var falið
að gera samning við hann vegna þessara verkefna.
Eftir næstu sveitarstjórnarkosningar verði kosið sérstakt hverfisráð í Grímsey.
Bæjarstjóri upplýsti jafnframt á fundi bæjarráðs að Sigríður Stefánsdóttir verkefnastjóri muni hafa yfirumsjón
með verkefnum sem tengjast sameiningu sveitarfélaganna næstu 2 árin, fylgja þeim eftir og vera tengiliður við samráðsnefnd/hverfisráð
eyjunnar.